„Svona lagað hefur aldrei gerst hér“

Svein Stølen háskólarektor segir annað eins aldrei hafa gerst við …
Svein Stølen háskólarektor segir annað eins aldrei hafa gerst við Háskólann í Ósló, öllu máli skipti að halda starfseminni og daglegu lífi áfram. Ljósmynd/Universitetsavisa

„Það sem skiptir mestu máli er að við komum okkur strax aftur til baka í okkar eðlilega líf, kennsla við skólann hófst strax aftur í dag,“ segir Svein Stølen, rektor Háskólans í Ósló, í samtali við mbl.is. Íslenskur kennari við skólann var stunginn í gær.

„Nemendur sem þess þurfa hafa notið þeirrar hjálpar sem þeir þarfnast, þetta er auðvitað skelfilegur atburður og hugur okkar er hjá fjölskyldum og ástvinum kvennanna sem særðust í þessari óhugnanlegu árás,“ heldur Stølen áfram, prófessor í efnafræði við háskólann sem hefur gegnt stöðu rektors í sex ár en verið starfandi við skólann allar götur síðan 1991.

„Við lítum þetta auðvitað mjög alvarlegum augum, svona lagað hefur aldrei gerst hér við skólann,“ segir rektor.

„Þetta er auðvitað áfall“

Hann segir stjórnendur skólans styðja eftir megni við konurnar sem urðu fyrir árás nemanda sem var ekki sáttur við frammistöðu sína á prófi við lyfjafræðideildina. „Þetta er auðvitað áfall og mjög sérstakt að þetta gerist hjá okkur. Allir okkar sérfræðingar sem fást við eftirköst alvarlegra áfalla segja mér að allra mikilvægast sé að við höldum áfram eðlilegri starfsemi við stofnunina og það er það sem við gerum,“ segir Stølen.

Nemendur við skólann eru 27.000 og tekur rektor fram að þegar svo stórt samfélag sé undir skipti öllu að halda áfram og láta ekki örvinglaðan ofbeldismann ná tökum á skólasamfélaginu. „Það er það sem við erum fyrst og fremst upptekin af núna eins og staðan er,“ segir rektor að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert