„Það er verið að brjóta á börnunum“

Unglingastigið í Myllubakkaskóla mun aðeins læra í þrjá tíma á …
Unglingastigið í Myllubakkaskóla mun aðeins læra í þrjá tíma á dag og ekki fá hádegismat. Ljósmynd/Reykjanesbær

Nemendur í 8.-10. bekk Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ munu aðeins fá að læra þrjá tíma á dag í kennslustofu fyrstu vikurnar og munu ekki fá hádegismat. Anita Engley Guðbergsdóttir, verkefnastjóri hjá foreldrafélögum grunnskólanna í Reykjanesbæ, segir að reiði foreldra beinist að bæjaryfirvöldum.

Grunnskólabyggingar Myllubakkaskóla og Holtaskóla í Reykjanesbæ verða án kennslu næstu árin vegna framkvæmda vegna myglu- og rakaskemmda. 

Áætlað var að miðstig grunnskólanna yrðu í gámabyggð á þessu skólaári en framkvæmdir á gámabyggðinni hafa frestast allverulega og verða gámarnir í allra fyrsta lagi tilbúnir eftir þrjár vikur. Skólastarf Myllubakkaskóla hefst í næstu viku.

Mikil reiði er meðal foreldra út í bæjaryfirvöld vegna ástandsins að sögn Anitu.

Eru í „skólanum“ þrjá tíma á dag

Nemendur í 8.-10. bekk fá eins og áður sagði ekki kennslustundir í meira en þrjá tíma á dag, eða á milli klukkan 12-15 á daginn, þar til gámabyggðirnar verða tilbúnar eftir 3-6 vikur.

Gert er ráð fyrir því að nemendur skili verkefnum sem þeir eigi að læra heima fyrir hádegi en Anita segir að slæm reynsla sé af því frá faraldrinum.

Anita segir bæinn vera að brjóta á lögum. Nemendur í 8.-10. bekk séu umtalsvert færri stundir á viku í skóla en lög kveði á um.

Í 28. grein laga um grunnskóla sé talað um að börn í 8.-10. bekk skuli að lágmarki fá 1.480 mínútur í kennslu á viku en undir núverandi fyrirkomulagi munu nemendurnir aðeins vera 900 mínútur á viku.

„Það er verið að brjóta á börnunum,“ segir Anita og segist hafa lagt fram spurningar til menntaráðs Reykjanesbæjar í morgun um það hvernig bærinn hyggist ætla að bæta börnunum upp það kennslutap sem þau munu verða fyrir. Því hafi ekki verið svarað á fundinum en að næsti fundur sé í september.

8.-10. bekkur fær ekki hádegismat

Það er þó ekki eina lögbrotið sem bærinn er að fremja að sögn Anitu en eins og áður sagði munu nemendur í 8.-10. bekk ekki fá hádegismat fyrstu vikurnar. Mega þeir þess í stað taka nesti með sér og borða í tíma.

„Þeim stendur ekki til boða að fá skólamat þegar skólinn byrjar, sem er bara brot á lögum,“ segir Anita og vitnar þar 23. grein laga um grunnskóla sem hljóðar svona:

„Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja.“

Anita segir reiði foreldra beinast að bæjaryfirvöldum.
Anita segir reiði foreldra beinast að bæjaryfirvöldum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reiðin beinist að bænum

Anita segir mikilvægt að taka fram að starfsfólk Myllubakkaskóla beri ekki ábyrgðina, það eigi allt hrós skilið.

„Skólastjóri Myllubakkaskóla og starfsfólkið á allt hrós skilið fyrir óendanlegan sveigjanleika. Enda snýst reiði foreldra ekki að þeim, hún snýr að Reykjanesbæ. Foreldrar hefðu ekki staðið upp núna sárir og svekktir ef við hefðum bara gengið að borðinu eins og við létum frá því í vor, þar sem talað var um að börn myndu fá lágmarksskólastarf.“

Hún segir ástandið bitna mjög illa á unglingastiginu því að að hver einasta einkunn skipti máli fyrir framhaldsskólastigið.

„Það er verið að svipta þessi börn námstíma og innlögn sem skiptir ekki síður máli, þó þau hafi meiri aðlögunarhæfni.“

Aldrei upplifað venjulega skólagöngu

Hátt í fimm ár eru síðan mygla fannst í Myllubakkaskóla og hefur skólastarf hjá nemendum verið raskað síðan þá.

„Börnin sem voru að byrja í fjórða bekk hafa aldrei upplifað venjulega skólagöngu í Myllubakkaskóla. Þetta fer að verða hálf skólagangan,“ segir Anita.

Nú er unnið að gámabyggð eins og áður sagði en á meðan er miðstig Myllubakkaskóla í Íþróttaakademíunni fyrir hádegi og unglingastig eftir hádegi. Unglingastig mun þó ekki fara í gámabyggðina þegar hún verður klár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka