Þórður fær ekki að áfrýja

Þórður taldi neðri dómsstig hafa lesið ranglega úr ákæru.
Þórður taldi neðri dómsstig hafa lesið ranglega úr ákæru. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarbeiðni Þórðar Más Sigurjónssonar, sem var í sumar dæmdur í Landsrétti í fjögurra ára fangelsi fyrir frelsissviptingu, líkamsárásir, hótanir og fleiri brot. Þórði var einnig gert að greiða brotaþolum miskabætur.

Beiðni sína byggði Þórður á því að hann taldi dóm Landsréttar rangan að formi og efni. Taldi hann bæði héraðsdóm og Landsrétt hafa ranglega lesið úr kæru og metið sönnunargögn málsins með röngum hætti.

Jafnframt taldi Þórður að niðurstöður Landsréttar um skaðabætur stæðust ekki.

Hæstiréttur taldi hins vegar ekki tilefni til að verða við beiðninni, enda byggði niðurstaða Landsréttar um sakfellingu að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, sem ekki yrði endurskoðað fyrir Hæstarétti.

Tvær hrottalegar frelsissviptingar

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir Þórði í sumar vegna hrottalegra frelsissviptinga og ofbeldisbrota sem áttu sér stað á Akureyri árin 2017 og 2020.

Fórnarlambinu í öðru málinu var haldið í gluggalausri geymslu yfir nótt og það ítrekað beitt ofbeldi og misþyrmingum, ásamt því að vera ógnað. Í hinu málinu var um að ræða 18 ára dreng sem var hótað með kartöflugaffli og ostaskera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert