Undrast yfirlýsingu fjármálaráðherra

Samsett mynd

Formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka lýsa undrun sinni á yfirlýsingu fjármálaráðherra, sem sagði í dag að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að halda aftur af verðbólgunni, heldur hlutverk Seðlabankans.

Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segja Bjarna Benediktsson bera mikla ábyrgð á verðbólgunni.

Þau segjast hissa á yfirlýsingum hans og segja ekkert nýtt í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag. Auk þess telja þau skilaboðin óskýr.

Ekki það sem almenningur þarf að heyra

„Stóra fréttin í dag er að fjármálaráðherra sé búinn að kasta frá sér ábyrgð á efnahagsmálum. Vegna þess að hann fullyrðir að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgunni heldur hlutverk seðlabankans,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem veltir fyrir sér trúverðugleika ríkisstjórnarinnar inn í haustið.

„Þetta er ekki það sem almenningur þarf að heyra núna,“ segir hún og bætir því við að henni finnist uppleggið inn í haustið ekki til þess fallið að auka trúverðugleika.

Aðgerðirnar einar og sér segir Kristrún góðar og gildar, enda snúast þær um að reka ríkið betur. Hún geti þó ekki séð að það sé stór pólitísk ákvörðun að reyna að reka ríkisstofnanirnar betur.

Koma í veg fyrir launahækkanir á núverandi verðbólgu

„Það er eilífðarverkefni. Það hljóta að vera einhver alvöru stór skref sem þarf að taka til að hafa áhrif á væntingar núna,“ segir hún og bætir því við að engin alvöru skilaboð hafi falist í aðgerðunum.

Kristrún segist hafa vilja sjá afmarkaðan kjarapakka sem hefði verið fullfjármagnaður með alvöru pólitískum aðgerðum um það hvernig við ætlum að vinna með velferðar- og skattkerfið. Enda til þess að koma í veg fyrir að fá miklar launahækkanir ofan á þá verðbólgu sem nú er.

„Ekki bara hagræðingaraðgerðir í efsta stjórnsýslustiginu sem hafa verið kynntar fjórum sinnum áður.“

Stórmál og vond skilaboð

„Ég verð að segja alveg eins og er, miðað við yfirlýsingar fjármálaráðherra um að hann ætli ekki að axla sína ábyrgð og standa undir því hlutverki sem fjármálaráðherra þarf að gera til að berjast við verðbólguna,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

„Þetta eru vond skilaboð, að fjármálaráðherra og seðlabankastjóri séu farnir að benda á hvor annan og ekki að átta sig á alvarleika stöðunnar. Þetta er auðvitað stórmál í þessu samhengi og auðvitað með ólíkindum að þeir ætli ekki að horfast í augu við eigin ábyrgð hvað þetta varðar.“

Henni þyki miður að hlusta á svona ummæli og segist miður sín yfir þessu skilningsleysi gagnvart íslenskum heimilum í þessu verðbólguástandi.

Fer ekki saman hljóð og mynd

Hún segist þó fagna því að loksins sé verið að hlusta á ítrekuð varnarorð Viðreisnar um stjórnlausa útgjaldaaukningu hins opinbera.

„Við höfum flaggað gulum, appelsínugulum og rauðum flöggum, þegar kemur að ríkisfjármálum, frá því árið 2018,“ segir hún en bætir við að í þetta skipti sé eins og ekki fari saman hljóð og mynd hjá ríkisstjórninni.

„Það hefði þurft að stíga miklu stærri skref og senda skýr skilaboð til að sýna að ríkisstjórnin taki stöðuna alvarlega,“ segir Þorgerður.

Sjálf segist hún hafa átt von á miklu stærri fréttum og gagnrýnir að ríkisstjórnin haldi blaðamannafundi með endurnotuðu og endurunnu efni.

Ekki í samræmi við hagfræðikenningar

„Merkilegast af öllu fannst mér yfirlýsing fjármálaráðherrans um að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar, eða ríkisfjármálanna, að vinna bug á verðbólgunni. Að það sé hlutverk Seðlabankans,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins um yfirlýsingu fjármálaráðherra frá því fyrr í dag.

„Það er ekki í samræmi við neinar reyndar kenningar í hagfræði, að ríkisútgjöld hafi ekki áhrif á verðbólgu,“ segir Sigmundur og bætir við:

„Það má eiginlega endurorða þetta þannig að ríkisstjórnin vill bara fá að eyða eins miklum peningum og hún vill. Svo er það hlutverk Seðlabankans að bregðast við því með því að hækka vexti.“

Í báðum tilfellum lendir reikningurinn hjá almenningi, segir Sigmundur, og þar af leiðandi beri ríkisstjórnin mikla ábyrgð á verðbólgunni.

Þveröfugar aðgerðir

„Það var alveg ljóst þegar atvinnulífinu var að miklu leyti lokað og peningar prentaðir á meðan, að það myndi leiða til aukinnar verðbólgu,“ segir Sigmundur, hissa yfir því að ríkisstjórnin hafi ekki farið í að spara eftir þessi miklu útgjöld. Kveðst hann hafa haldið að ríkisstjórnin hefði áttað sig á að þess þyrfti.

„Svo gerðist bara þveröfugt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert