Grunurinn staðfestur eftir þriggja ára bið

Skálinn er 21 metri að lengd og var líklegast byggður …
Skálinn er 21 metri að lengd og var líklegast byggður á landnámsöld. Svart gólf undir jarðveginum staðfestir að þarna hafi verið eldstæði. Samsett mynd

„Það er orðið ljóst að þarna er í raun óþekktur skáli í friðlandinu við Dynjanda, töluvert frá bæjarstaðnum,“ segir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, deildarstjóri fornleifadeildar Náttúrustofu Vestfjarða.

Nýverið fann rannsóknarhópur hennar vísbendingu um að landnámsskáli hefði staðið á svæðinu.

Vísbendingin sem um ræðir er svart gólf sem fannst undir jarðveginum á svæði nálægt fossinum Dynjanda. 

„Þegar það koma svona svört gólf þá sjáum við að það hafi verið eldstæði, sem bendir til þess að þetta sé skáli,“ segir hún og bætir við að hún hafi einnig fundið torf í veggjum skálans.

Dynjandi í Arnarfirði. Fornleifafræðingar hafa fundið sannfærandi vísbendingar um að …
Dynjandi í Arnarfirði. Fornleifafræðingar hafa fundið sannfærandi vísbendingar um að þarna hafi staðið landnámsskáli. Ljósmynd/Aðsend

Faraldurinn frestaði greftrinum

Margrét segir við mbl.is að um sé að ræða hluta af stærri rannsókn, sem heitir Arnarfjörður á miðöldum. Árið 2020 fékkst styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og þá fékk hópurinn Gunnar Grímsson til liðs við sig, sem var þá að læra fornleifafræði.

Gunnar flaug dróna með hitamyndavélar yfir svæðið og þrívíð líkön voru gerð til þess að sjá hvort nokkuð leyndist undir jarðveginum. Margrét segir að þá hafi fundist merki um skála og það hafi vakið athygli hópsins.

„En svo kemur Covid,“ segir Margrét.

Það var því ekki fyrr en í vikunni sem hópurinn fór á vettvang með borkjarna og á miðvikudaginn fann Margrét svart gólf úr landnámsskála, nokkrum sentimetrum undir jarðveginum. Þá sé ljóst að þarna hafi skáli staðið að fornu.

Hitamælingar frá svæðinu.
Hitamælingar frá svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

21 metri að lengd

Margrét segir að skálinn sé 21 metri að lengd. Kveðst hún þó ekki geta sagt til um hverjir eða hversu margir hafi búið í skálanum.

„Þarna voru landnámsmenn að setjast að í Arnarfirði og virðast setjast að nokkuð snemma og nokkuð þétt á landnámsöld,“ segir hún. „Það eru örugglega ekki öll kurl komin til grafar. Það á eflaust meira eftir að koma í ljós í áframhaldandi rannsóknum.“ 

Hópurinn hefur unnið að ýmsum rannsóknum að undanförnu, til að mynda við Auðkúlu og Búðavík. Morgunblaðið sagði frá því í sumar að rannsóknarhópurinn hefði fundið býlið Skjaldfönn en býlið varð undir skriðu í firðinum einhvern tímann fyrir árið 1551.

„Það var alltaf talið að Vestfirðir hefðu byggst síðast í landnáminu en við erum að sjá núna að aldursgreiningarnar, til dæmis frá Auðkúlu, benda til þess að þar hafi verið byggt mjög snemma. Fólk var komið í Arnarfjörðinn mjög snemma í landnáminu,“ segir Margrét.

„Það er einmitt það sem okkur langar til að kortleggja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert