Lilja hefur fulla trú á íslenskri tónlist

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur fulla trú á því …
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur fulla trú á því að íslensk tónlist eigi eftir að vaxa. mbl.is/Eyþór Árnason

Lilja Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, segist ekki hafa beinar áhyggjur af því að hlutdeild íslenskrar tónlistar hafi minnkað á síðustu árum. Hún horfir bjartsýn fram á veginn og segir að ný tónlistarmiðstöð muni styðja vel við greinina

„Ég hef fulla trú á því að íslensk tónlist eigi eftir að vaxa jafnvel þó þessar tölur líti svona út. Það er bara svo rosalegur vöxtur í þessu,“ segir Lilja. 

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær hefur hlutdeild íslenskrar tónlistar af heildarsölu á tónlist minnkað jafnt og þétt síðustu ár. Í markaðsskýrslu Félags hljómplötuframleiðenda kemur fram að hún var einungis 19,5% af heildarsölu árið 2022.

Lilja segir þrennt orsaka það að íslenskan sé undir miklum þrýstingi. Það eru hraðar tæknibreytingar, fólksflutningar á heimsvísu og breytingar á atvinnuvegum landsins.

„Við tökum þessu mjög alvarlega. Þess vegna höfum við gert tónlistarstefnu sem samþykkt var á Alþingi og ný heildarlög um tónlistina. Svo erum við núna að sameina Inntón, Útón og Tónverk í eina stofnun, Tónlistarmiðstöð. Við erum að setja meiri fjármuni í hana en líka að gera þetta öflugra sem er einmitt til þess að efla íslenska tónlist, íslensk tónverk og útflutning á íslenskri tónlist,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert