„Við erum ekki ein­ráð“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á flokksráðsfundi Vinstri grænna í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á flokksráðsfundi Vinstri grænna í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Stundum finnst mér þegar við ræðum þessi mál að maður sé úthrópaður úr báðum herbúðum, þeirra sem vilja helst engar reglur hafa og engin landamæri og þeirra sem vilja ala á útlendingaandúð og ótta við þau sem eru ekki innfædd hér.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, um útlendingamálin á flokksráðsfundi í dag.

Benti Katrín á að útlendingamálin hefðu borið hátt allt kjörtímabilið.

„Í þessum málaflokki finnst mér stundum eins og umræðan gangi út á það hver geti teygt pólana lengst hvorn í sína áttina og það er náttúrulega ekki sérlega hjálplegt þegar um er að ræða málefni sem snýst um fólk og ábyrgð okkar á að finna sameiginlega lausn er þeim mun ríkari.“

Titringur í stjórnarsamstarfinu

Katrín fór um víðan völl í erindi sínu á fundinum. Hún ræddi meðal annars núverandi ríkisstjórnarsamstarf og viðurkenndi að borið hefði á titringi í samstarfinu.

„Þetta er samstarf, við erum ekki einráð. Stundum gengur okkur ekki nægjanlega vel að finna sameiginlegar lausnir.“

Hún benti á að umbrotatímar væru í stjórnmálum víða.

„Stríðið í Úkraínu skekur alla álfuna, áskoranirnar eru stórar hvort sem er á sviði umhverfismála, fólks á flótta eða því verkefni að tryggja almenn lífskjör fólks og maður finnur það þegar maður fylgist með að flestar ríkisstjórnir álfunnar eiga undir högg að sækja, eiginlega óháð samsetningu.

Þannig að það skiptir máli að við erum ekki eyland í þessu frekar en öðru og það eru sömu straumar að verki hér því það er flókið að vera í ríkisstjórn, það er flókið að finna lausnir, miklu flóknara en að segja bara sína skoðun hverju sinni.“

Frá flokksráðsfundi á Flúðum í dag.
Frá flokksráðsfundi á Flúðum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Frábær árangur í mörgum málum

Sagði hún að félagar í VG væru margir hverjir ánægðir með störf flokksins í ríkisstjórn, en einnig óánægðir með sumt og það sem hinir stjórnarflokkarnir hafi verið að gera. Katrín sagði það eðlilegt.

Hún sagði það þó ekki breyta því að í mörgum málum hefðu stjórnarflokkarnir náð frábærum árangri og oft góðum sameiginlegum lausnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert