Bjóða út framkvæmdir við Fossvogsbrú

Búast er við að framkvæmdir vegna fyllinga við brúna geti …
Búast er við að framkvæmdir vegna fyllinga við brúna geti hafist í lok árs. Teikning/Efla og BEAM

„Samkvæmt núverandi tímaáætlun þá er búist við því að við getum á þessu ári farið að bjóða út framkvæmdir vegna fyllinganna fyrir brúna,“ segir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri Samgangna ohf.

Búist er við að framkvæmdir við Fossvogsbrú hefjist í lok árs. Einungis er um að ræða vinnu vegna fyllingar við brúna en brúarsmíðin sjálf verður boðin út á næsta ári, segir Davíð.   

Fyrsta framkvæmd Borgarlínu 

Um er að ræða fyrstu framkvæmd Borgarlínu sem gerð er fyrst og fremst vegna hennar, segir Davíð. Sums staðar, í nýjum hverfum, hefur þó verið gert ráð fyrir Borgarlínunni og því ekki um að ræða fyrstu eiginlegu framkvæmdina.

Í því samhengi nefnir Davíð jafnframt að búið sé að leggja ansi marga kílómetra af hjóla- og göngustígum samkvæmt samgöngusáttmálanum, auk ýmissa vegaframkvæmda, sem þó séu ekki hluti af Borgarlínu heldur Samgöngusáttmálanum sem inniheldur Borgarlínu. 

Borgarlínu og samgöngusáttmála ruglað saman 

Hann segir algengt að Borgarlínu og Samgöngusáttmálanum sé ruglað saman. Búið er að framkvæma ýmislegt vegna Samgöngusáttmálans en ekki vegna borgarlínu. 

Aðspurður segir hann ekki komna neina tímaáætlun vegna annarra framkvæmda.

Sem stendur er unnið að uppfærslu á Samgöngusáttmálanum, bæði tíma- og kostnaðaráætlunum. Þeirri uppfærslu á að ljúka í nóvember og þá verður hægt að gefa út nákvæmari tímaáætlanir. 

„Þannig að það eru engar tímaáætlanir varðandi neitt annað í bili,“ segir Davíð. 

Mestur peningur í stofnvegi

Eins og Davíð segir er unnið að uppfærslu á öllum Samgöngusáttmálanum. Sáttmálinn snýr fyrst og fremst að stofnvegaframkvæmdum, svo Borgarlínu og hjóla- og göngustígum, segir Davíð sem bætir við að mestur peningur samkvæmt sáttmálanum eigi að fara í stofnvegi. 

Má búast við því að það verði forgangsraðað eftir því?  

„Það eru stjórnmálamennirnir sem að ákveða það. Við komum með tillögur og erum að uppfæra áætlanir. Síðan eru það ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem ákveða hvernig uppfærður sáttmáli lítur út. Hvort það verði einhverjar breytingar og þá hverjar,“ segir Davíð. 

Að lokum bætir Davíð við:

„Það er ekkert mál að gera tvennt í einu, það er ekkert mál að byggja veg og Borgarlínu á sama tíma. Enda ekkert sem segir að það sé ekki hægt að gera tvennt í einu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert