„Erfitt að greina hvað er eggið og hvað er hænan“

Skógarlendi hefur víða staðið í ljósum logum í ár.
Skógarlendi hefur víða staðið í ljósum logum í ár. AFP

„Það er hægt að segja „þessi flutti út af stríðinu“, þegar hann er raunverulega loftslagsflóttamaður,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður á skrifstofu loftslagsþjónustu á Veðurstofu Íslands.

Hún segir í mörg horn að líta þegar kemur að loftslagsbreytingum, en þær muni líklega þrýsta á fólksflutninga.  

Hún segir fá gögn benda til þess að loftslagsbreytingar stuðli að fólksflutningum til og innan Evrópu eins og er, enda flókið að mæla slíkt.

Þegar horft sé til framtíðar sé hins vegar margt sem bendi til þess að ójöfn dreifing áhættu í tengslum við loftslagsvá þrýsti á fólksflutninga.

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður á skrifstofu loftslagsþjónustu á Veðurstofu Íslands.
Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður á skrifstofu loftslagsþjónustu á Veðurstofu Íslands.

Lífsafkoma verður ótryggari

Anna segir erfitt að greina eina ástæðu fyrir fólksflutningum þar sem oft séu margir þættir sem þar spili inn í, hvort sem það séu þvingaðir, frjálsir eða skipulagðir fólksflutningar. Erfitt sé því að vita hvort straumur loftslagsflóttamanna sé jafnvel þegar að berast til Íslands.

„Það er alveg ljóst að lífsafkoma fólks á sumum hnattsvæðum verður ótryggari vegna neikvæðra áhrifa loftslagsbreytinga,“ segir Anna og bætir við að oft sé talað um að loftslagsbreytingar margfaldi aðrar ógnir eins og til dæmis stríð, sem síðan á endanum leið til flutninga.

Þá sé oft erfitt að greina hvort fólk sé að flýja átök, pólitískan óróa eða loftslagsbreytingar þegar allir þættirnir geti í raun átt við.

„Þannig er oft erfitt að greina hvað er eggið og hvað er hænan.“

Óbein neikvæð áhrif

Bein áhrif loftslagsbreytinga lenda fyrr og harkalegar á löndum annars staðar að sögn Önnu en hún segir Ísland tiltölulega heppið hvað slíkar afleiðingar varðar, þó við sleppum með engu móti alfarið við þær.

Ísland verði hins vegar fyrir óbeinum neikvæðum áhrifum breytinganna vegna keðjuverkandi áhrifa þvert á landamæri.

„Þurrkur á einum stað getur haft þau áhrif að áfangakeðjan á eitthvað sem við treystum á, á Íslandi, getur sett allt kerfið okkar í rúst,“ segir Anna og bendir á að Ísland hafi þegar upplifað slíkar afleiðingar t.d. vegna heimsfaraldursins og í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. 

Hitastig farin að valda dauðsföllum

Sífellt fleiri fregnir hafa borist af öfgum í veðri og hafa hitamet ítrekað verið slegin víða um heim. Skógareldar hafa herjað á fjölda landa í hitanum og ferða- og heimamenn jafnvel þurft að flýja vinsæla ferðamannastaði eins og grísku eyjurnar og nýlega Tenerife.

Nýverið sáust einnig afleiðingar gríðarlegs vatnsvaxtar í Noregi, þegar stífla brast í á og flæddi í nærliggjandi byggðir.

Spurð hvort slíkt sé merki um að neikvæðar afleiðingar váarinnar færist nær okkur, segir Anna það enga spurningu. „Þetta er beintengt. Þetta getur allt gerst hraðar en við vorum að sjá fyrir okkur.“

Hún segir afleiðingar loftslagsváarinnar svo sannarlega vera farnar að segja til sín og víðs vegar séu hitastig farin að ná slíkum hæðum að þau valdi dauðsföllum.

Frá flóðum í Noregi.
Frá flóðum í Noregi. AFP

Þarf algjöra umbyltingu

Spurð í hvað stefni og hvort ekki megi búast við því að fólk fari að færa sig um set í auknum mæli ef hreinlega sé orðið ólíft á vissum svæðum, svarar Anna játandi. Hún segir hlutina vissulega geta farið að gerast hraðar, en þeir muni engu að síður gerast í skrefum. 

„Þetta gerist í skrefum og þetta er margþátta. Það mun vera meiri órói, það munu vera rifrildi um náttúruauðlindir og það mun vera vatnsskortur,“ segir Anna.

Hún segir því mikilvægt að stjórnvöld taki mið af réttlátum umskiptum við að móta nýja stefnu. „Við erum að sjá fram á að það þurfi algjöra umbyltingu.“

Bitnar frekar á konum

„Við þurfum að skoða hvaða áhrif stefnumótun og aðgerðir í loftslagsmálum hafa á ólíka hópa og samfélög,“ segir Anna og nefnir þar sem dæmi að áhrif fólksflutninga og loftslagsbreytinga bitni til dæmis harðar á konum. 

Hún segir líklegra að náttúruvá hafi neikvæðari áhrif á konur og að ástæður fyrir því geti verið margar. Það geti verið allt frá ábyrgð sem fylgi því að vera í umönnunarhlutverki,  lægra menntunarstig, bágari fjárhagsstaða og jafnvel menningarleg viðmið eins og klæðaburður.

„Þetta spilar allt inn í það að þær eru berskjaldaðri fyrir þessum breytingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert