„Gróf aðför að ítölsku hinsegin fólki“

Samtökin '78 mótmæltu í dag.
Samtökin '78 mótmæltu í dag. Ljósmynd/Aðsend

Um 50 manns mættu í hádeginu til samstöðufundar sem Samtökin '78 boðuðu með ítölskum hinsegin fjölskyldum fyrir utan Hörpu.

Segir í tilkynningu frá Samtökunum '78 að ríkisstjórn Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, vinni gegn hinsegin fólki og þá sérstaklega fjölskyldurétti þeirra í nafni „hefðbundins“ fjölskyldumynsturs. Lagabreytingar í landinu valdi því að aðeins „líffræðilegt“ foreldri sé skráð á opinber fæðingarvottorð barna.

„Hér er um að ræða grófa aðför að ítölsku hinsegin fólki og börnum þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Um 50 manns mættu á samstöðufundinn.
Um 50 manns mættu á samstöðufundinn. Ljósmynd/Aðsend

Hafi áhrif á 150.000 börn

Haft er eftir Evu Maríu Þórarinsdóttur, stofnanda Pink Iceland og fyrrverandi formanni Hinsegin daga, að það skjóti skökku við að ríkisstjórn Ítalíu sé markvisst að vinna gegn fjölskyldum, einkum með tilliti til þess að Meloni lýsir sér sem „kristinni móður“ sem vilji standa vörð um „hefðbundin“ fjölskyldugildi sem byggi helst á ást og viðurkenningu.

„[Þ]að er áætlað að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á Ítalíu muni hafa áhrif á um 150.000 börn og foreldra þeirra,“ segir Eva.

Frá samstöðufundinum í dag.
Frá samstöðufundinum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Hættulegt fordæmi fyrir Evrópulönd

Segja samtökin að ítalska ríkisstjórnin setji hættulegt fordæmi sem snerti ekki aðeins ítalskar fjölskyldur heldur hefti einnig ferða- og búsetufrelsi íslenskra fjölskyldna í Evrópu.

„Það er óásættanlegt að réttur barna og fjölskyldna þeirra sé ekki varinn, að annað foreldri eigi von á því að missa rétt sinn til að ná í barnið sitt í skólann, fylgja því til læknis og hefur engan lagalegan rétt gagnvart barni sínu. Sum þessara barna eru orðin 6 ára gömul,“ sagði Anna Butticè, ítalskur sjálfboðaliði Samtakanna '78, á fundinum.

Þá er einnig haft eftir Bjarndísi Helgu Tómasdóttur, varaformanni Samtakanna '78: „Samtökin '78 eru samtök alls hinsegin fólks á Íslandi en við megum ekki gleyma því að horfa út fyrir landsteinana því það er verið að veitast að réttindum hinsegin fólks víða um heim. Það er skylda okkar að sýna þeim samstöðu og stuðning.“

Nokkrir fluttu erindi á fundi samtakanna.
Nokkrir fluttu erindi á fundi samtakanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert