Sigmundur Davíð Gunnlaugssson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segist vera ósáttur við þau viðbrögð sem hann fékk fyrir að leyfa Samtökunum 22 að halda málþing sitt í sal flokksins.
Kveðst hann einnig hneykslaður á því að stjórnvöld „eyða orðum eins og „kona“ og „móðir“ úr lagafrumvörpum sínum“.
Sigmundur fékk í gær birta grein í breska miðlinum Spectator, undir pennanafninu David Gunnlaugsson. Greinin ber yfirskriftina „Hvernig trans hugmyndafræðin tók yfir Ísland“.
Rekur hann sögu þess þegar hann bauð Samtökunum 22 að nota aðstöðu Miðflokksins til málþings sem haldið var um Hinsegin daga. Málþingið átti að vera haldið í Þjóðminjasafninu og síðan reiðhöllinni í Víðidal en aðstandendur beggja húsa aflýstu bókuninni eftir að að hafa komist að því fyrir hvað samtökin stæðu.
Segir hann þá að formaður „maður sem ég hafði aldrei hitt“ haft samband við Sigmund og beðið hann um hjálp við að finna fundarsal.
Samtökin 22 kalla sig hagsmunasamtök samkynhneigðra en Samtökin '78, auk annarra í hinsegin samfélaginu, hafa fordæmt þau.
„Í öllum tilvikum virðist barátta [Samtakanna 22] fyrst og fremst snúast um að ráðast að réttindum trans fólks sem tryggð eru með lögum um kynrænt sjálfræði frá árinu 2019,“ sögðu Samtökin '78 í yfirlýsingu á sínum tíma.
Málþingið var því haldið í sal Miðflokksins, laugardaginn 12. ágúst.
Sigmundur skrifar að hann hafi verið „furðu lostinn“ þegar hann heyrði að flokksmönnum hefði borist fjölda símtala frá aðgerðasinnum sem bæðu þá um að blása þingið af.
„Hvernig komumst við á þann stað að opinberum stofnunum og stjórnmálaflokkum er ógnað fyrir að vera gestgjafi fundar til að ræða mannréttindamál?“ skrifar Sigmundur.
Þrátt fyrir að atburðarásin hafi ringlað forsætisráðherrann fyrrverandi segir hann þetta ekki vera í fyrsta skiptið sem þessi málefni hafi flækst fyrir sér. Vísar hann þá til þess að íslensk stjórnvöld hafi „reynt að þrýsta“ frumvarpi í gegn er snertir kynrænt sjálfræði „án nokkurrar umræðu um áhrif þess á kvennaíþróttir, einkarými og fangelsi“.
„En það var bara upphafið. Síðan þá hefur ríkisstjórnin kynnt til sögunnar lög sem gera hefðbundnar skurðaðgerðir á börnum með fæðingargalla erfiðari – ef þeir gallar koma kynfærum þeirra eitthvað við. Er það vegna þess að þessir gallar eru álitnir sem „tákn“ [e. representation] kynvitundar,“ skrifar Sigmundur.
„Við vorum þau einu sem gagnrýndum þetta á þinginu,“ bætir hann við. Gagnrýni Miðflokssmanna hafi þó aðeins verið svarað með háði. Þá fullyrðir hann að fjöldi heilbrigðisstarfsfólks hafi haft samband við flokksmenn til að þakka þeim fyrir gagnrýnina.
„Núna hefur ríkistjórnin hafist handa á því að eyða orðum eins og „kona“ og „móðir“ úr lagafrumvörpum sínum. Því fólki er skipt út „leghafar“ og „fæðandi foreldrar“,“ skrifar Sigmundur.
Kveðst hann velta því fyrir sér hvernig hann hafi komist í þá stöðu „að þurfa að verja tímanum mínum í að þurfa afsaka stuðning minn við málfrelsi“.
„Svo virðist að í nútímastjórnmálum sé maður kallaður öfgafullur fyrir að segja það sem allir vissu að væri satt fyrir nokkrum árum,“ skrifar hann að lokum.