Tónlistarmaðurinn Arnar Jónsson, oft kenndur við strákasveitina Luxor, var á línunni í þættinum Skemmtilegri leiðin heim þar sem hann ræddi við þau Ásgeir Pál og Regínu Ósk um dvölina í Hollywood en Arnar er þessi misserin að vinna að nýrri sólóplötu sem að hans sögn má lýsa sem popp-rokkplötu.
„Ég var að taka upp sólóplötu sem ég er búinn að vera að vinna að í Covid-tímanum og byrjaði á að taka hana upp hér heima,“ svarar Arnar spurður að því hvað hann hafi verið að gera í borg hinna frægu.
„Þetta byrjaði sem sagt á því að ég skráði mig inn á síðu í fyrra, í september, sem heitir soundbetter.com af því ég var að leita að textahöfundi, enskum textahöfundi, til að aðstoða mig við nokkur lög,“ segir Arnar í símtalinu og bætir við að inn á síðuna hafi hann sett eitt demó.
„Ég fann engan textahöfund svo ég gleymdi þessu bara og fór ekkert að vinna í marga mánuði. Fór svo inn á þessa síðu í lok maí og þá var ég búinn að fá skilaboð frá þessum David Kershenbaum.“
Arnar hafði í fyrstu ekki hugmynd um hver umræddur maður var en eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að David hafði unnið með stórstjörnum á borð við Sting, Police og Tracy Chapman og meðal annars pródúserað hið vinsæla lag Fast Car. Honum leist það vel á prufuna sem Arnar setti inn að hann spurði hvort hann ætti fleiri.
„Ég sagði já, já og sendi honum fleiri. Daginn eftir vildi hann fá zoom-fund sem við tókum og til að gera langa sögu stutta þá endaði þetta þannig að hann vildi pródúsera þessa plötu og fékk hljóðfæraleikara sem eru risakanónur líka. Þannig að einhvern veginn allir, sem koma að þessari plötu að utan, hafa unnið Grammy-verðlaun svo þetta var svolítið súrealískt,“ segir Arnar sem þó svarar neitandi spurður að því hvort hann sé þá búinn að meika það.
Þá býst Arnar við að lokahönd verði lögð á plötuna í september þótt óvíst sé enn með útgáfudag hennar.
„Ég veit ekki alveg hvenær við gefum þetta út, það eru alls konar pælingar á lofti úti sem eru mjög spennandi. Ég er samt ekki alveg með svörin við þeim núna.“
Þegar talið berst að listamannanafni segir Arnar það næsta skref að velja það.
„Talandi um það, ég þarf sem sagt að velja mér listamannanafn af því að David segir að í Ameríku sé ekki hægt að bera fram Arnar, það þýði ekkert að nota það.“
Spurður að framhaldinu og hvort stefnan sé tekin erlendis svarar Arnar því til að búast megi við því að hann verði eitthvað úti.
„Við erum að setja upp smá strategíu og plan úti. David er nefnilega svo spenntur fyrir þessu öllu og ég að sjálfsögðu líka og við viljum gera meira úti þannig að það verður eitthvað.“
Viðtalið við Arnar í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér fyrir ofan.