Enn engin kennsla í húsi íslenskunnar

Edda - hús íslenskunnar.
Edda - hús íslenskunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Enn hafa engar kennslustundir á vegum Háskóla Íslands farið fram í Eddu, nýju húsi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við Arngrímsgötu í Reykjavík. Kennsla hófst í Háskóla Íslands seinasta mánudag en samt sem áður á enn eftir að leggja lokahönd á kennsluaðstöðu í húsnæðinu. Gengið er út frá því að kennslustundir hefjist ekki í Eddu fyrr en eftir áramót.

„Kennsla hefst ekki í Eddu fyrr en á næsta misseri. Þetta tafðist í sjálfu sér. Það átti upphaflega að afhenda Eddu síðasta haust en hún var ekki afhent fyrr en í vor og þá átti eftir að gera hitt og annað,“ segir Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála hjá Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Meðal annars eigi eftir að koma ýmsum búnaði fyrir í stofunum svo hægt sé að hafa kennslustundir þar. „Það eru ekkert margar kennslustundir í Eddu. 75% hússins eru notuð af Árnastofnun og þar er þó fyrirlestrasalur sem við munum líka nýta með þeim. Svo erum við með þrjár litlar kennslustofur og eina stærri. Hluti af þeirri kennslu sem fer fram hjá íslenskudeildinni flyst yfir, en ekki öll.“

Kristinn bætir við að í húsinu verði um 35 starfsmenn hugvísindasviðs. Margir þeirra séu þegar búnir að flytja yfir, þá aðallega þeir sem starfa við íslenskudeild.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert