Ferðamannaland án heimamanna

„Fólk held­ur hrein­lega að Ísland sé ferðamanna­land án heima­manna af …
„Fólk held­ur hrein­lega að Ísland sé ferðamanna­land án heima­manna af því að það heyr­ir aldrei neitt nema ensku,” segir Björg. Ljósmynd/Pablo San Juan

Rithöfundurinn og ritlistarkennarinn Björg Árnadóttir leggur til að ráðist verði í átak til að auka notkun íslenskrar tungu í ferðaþjónustu hérlendis. 

Björg vann við upplýsingagjöf til ferðamanna í Mývatnssveit á árunum 2013-2015 og svo aftur sumrin 2021 og 2022. Hún minnist þess að sumarið 2013 hafi öllum sem heimsóttu upplýsingamiðstöð verið heilsað á íslensku og flestir gestanna hafi reynt að segja góðan daginn.

„Í fyrrasumar fannst mér hins vegar sérkennilegt hve margir gestir í Gestastofu Kröfluvirkjunar sögðu að við værum einu Íslendingarnar sem þeir höfðu hitt á ferðalagi sínu,” segir Björg í samtali við mbl.is.

„Fólk heldur hreinlega að Ísland sé ferðamannaland án heimamanna af því að það heyrir aldrei neitt nema ensku.”

Ekta borg eða Disneyland?

Í sumar fór Björg í þriggja mánaða lestarferðalag um Evrópu og fannst henni gaman að skoða hvað enskunotkun er mismikil á ferðamannastöðum víðs vegar um álfuna.

Í sögufrægum miðbæ Valencia-borgar á Spáni segir Björg til dæmis að erfitt sé að finna upplýsingar og merkingar á ensku, jafnvel þótt þar sé mikið um ferðamenn. Allt sé á spænsku og stundum eingöngu á katalónsku mállýskunni valensísku.

Innan múrveggja gömlu borgarinnar í Prag er þessu öfugt farið en þar er enskan áberandi sem og hvers kyns söluvarningur fyrir ferðafólk.

„Þótt ég elski Prag upplifði ég miðbæinn að þessu sinni sem einhvers konar Disneyland á meðan mér finnst Valencia vera ekta. En auðvitað er ferðaþjónustunni vandi á höndum að finna réttu hlutföllin þannig að gestir skilji upplýsingar án þess að tungumál heimamanna týnist.”

Hvetur til öflugs átaks

Í færslu í Facebook-hópnum Málspjallinu stingur Björg upp á að okkar hugmyndaríkasta og framkvæmdaglaðasta fólk taki sig saman og efni til öflugs átaks til að efla íslenska tungu í ferðaþjónustunni.

Hún hvetur til þess að slík herferð spretti úr grasrótinni en verði ekki til samkvæmt fyrirmælum að ofan og vísar þar í verkefnið Góðir gestgjafar frá því í sumar þar sem þjóðin var hvött til að taka vel á móti erlendum gestum.

„Ég tók eftir að það fór öfugt ofan í marga að yfirvöld væru að segja almenningi hvernig ætti að haga sér í atvinnugrein sem flestir vinna ekki einu sinni við,” segir Björg. 

Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lenskri mál­fræði, er meðal þeirra sem taka undir hugmynd Bjargar og nefnir sérstaklega að slík herferð mætti ekki vera miðstýrð að ofan.

Eins og svarthvít kvikmynd frá stríðslokum

Björg kom heim úr lestarflakki sínu um Evrópu í á laugardagskvöldið og segir ferðalag sitt hafa verið gjörólíkt fyrstu Interrail-ferð hennar árið 1975.

„Þá var ég sautján ára og Evrópa leit allt öðruvísi út en síðan hefur mig alltaf langað aftur í svona ferð,” segir hún og tekur fram að hún hafi af ásettu ráði aðallega heimsótt staði sem hún hefur áður komið til, einkum austan til í álfunnni.

„Ég hóf ferðalagið í Gdansk í Póllandi þar sem ég upplifði algjört menningarsjokk árið 1988. Ég er afar ánægð með að hafa fengið að kynnast austurálfunni örlítið fyrir hrun múrsins. Ég man að ég upplifði sundursprengda Gdansk árið 1988 eins og þær svarthvítu kvikmyndir frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar sem ég hafði séð. Nú mætti mér afar falleg enduruppbyggð borg, iðandi af lífi.

Ég lauk ferðalaginu á Spáni en þaðan á ég ótal minningar frá áttunda áratugnum. Ég gleymi aldrei klósettum lestarstöðva á Spáni árið 1975 sem voru ógeðslegri en orð fá lýst. Í sumar fór ég hins vegar mínar bestu lestarferðir á Spáni. Ein ástæða þess að ég fór í þetta ferðalag var sú að mig langaði að sjá breytingarnar sem orðið hafa á Evrópu í stærra samhengi en því sem maður sér í stuttum skreppitúrum.”

Björg bloggaði um ferðalag sitt undir yfirskriftinni „Eldri kona á Interrail“ á meðan ferð hennar stóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert