„Greinilega ekki sama í hvaða póstnúmeri þú býrð“

„Það liggur fyrir kvörtun hjá umboðsmanni, svo það er í …
„Það liggur fyrir kvörtun hjá umboðsmanni, svo það er í rauninni síðasta hálmstráið nema eitthvað kraftaverk láti á sér kræla,“ segir Helga. Samsett mynd

„Okkur finnst dálítið eins og græn svæði á efri svæðum borgarinnar séu ekki eins metin og græn svæði í borginni. Það er greinilega ekki sama í hvaða póstnúmeri þú býrð,“ segir Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður vina Vatnsendahvarfs. 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tók á miðvikudag fyrstu skóflustunguna vegna framkvæmda við Arnarnesveg. Þriðja áfanga milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Um er að ræða 1,9 kíló­metra vegarkafla, tvö hring­torg, tvær brýr fyr­ir gang­andi og hjólandi veg­far­end­ur og göngu- og hjóla­stíga, sem sam­tals nema um 2,5 kíló­metra.

Sendu inn ábendingu á öllum skipulagsstigum

Vinir Vatnsendahvarfs hafa löngum barist gegn framkvæmdinni. Helga segir þau hafa sent inn ábendingar á öllum skipulagsstigum en þær hafi þó allar verið hundsaðar, þar sem engar þeirra voru teknar til greina. 

Helga segir þó ekki alla von úti því samtökin hafa enn ekki heyrt frá umboðsmanni Alþingis. „Það liggur fyrir kvörtun hjá umboðsmanni, svo það er í rauninni síðasta hálmstráið nema eitthvað kraftaverk láti á sér kræla,“ segir hún. 

Síðasta hálmstráið

Aðspurð segir hún umboðsmann geta komið með álit ef honum finnst sem réttur íbúa hafi verið brotinn. Álitið þarf síðan að senda til úrskurðarnefndar sem tekur málið fyrir. Helga er þó óviss um að það geti staðið á framkvæmdum, en aftur heldur hún í vonina um kraftaverk. 

„Persónulega held ég að samráð sé ekkert annað en sýndarlýðræði. Það er ekkert samráð haft við íbúa. Þeir segjast fylgja þessum reglum sem þeir setja fyrir sjálfan sig en síðan er ekkert hlustað á íbúða,“ segir Helga vonsvikin og bætir við að íbúar séu almennt mjög ósáttir. 

Á skjön við skoðanir borgarinnar 

Meðal þess sem Vinir Vatnsendahvarfs kölluðu eftir var að 20 ára gamalt umhverfismat yrði endurskoðað. Helga segir yfirvöld þó ekki hafa talið ástæðu til þess að endurskoða umhverfismatið. 

„Sem að er dálítið á skjön við skoðanir borgarinnar varðandi til dæmis trjágróður i Öskjuhlíðinni sem er miklu minna svæði,“ segir Helga og veltir fyrir sér hvers virði græn svæði í efri hluta borgarinnar eru. En um er að ræða útivistarsvæði og tengingu milli hverfa á rúmlega 11 hektara grænu svæði, að sögn Helgu. 

Spara pening og endurskoða hugmyndina

Helga telur ástæðuna fyrir því að svo mikil áhersla er lögð á framkvæmdina, sé vegna þess að ekki sé forsenda fyrir þéttingu byggðar á svæðinu nema fyrir tilkomu vegarins. 

„Þarna hugsar Kópavogur sér gott til glóðarinnar með sölu byggingarlands,“ segir Helga og bætir við að hún telji að þetta sé alltaf spurning um peninga þó notaðar séu aðrar afsakanir. 

Þá þykir henni skrítið að setja „stjarnfræðilegar“ upphæðir í framkvæmd sem ekki leysir nein vandamál. Sérstaklega í ljósi fyrirhugaðra aðgerða Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að segja upp 400 starfsmönnum til þess að spara peninga. 

„Hvernig væri að spara peninga og endurskoða þessa hugmynd,“ segir hún og bætir við:

„Sérstaklega þegar lausnin sem er í raun og veru verið að framkvæma er ekki að fara að leysa vandamálið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert