Annað listaverkanna eftir Ólöfu Nordal sem lýst var eftir í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er komið í leitirnar. Um er að ræða verkið Hvítabjörn sem hafði verið týnt frá því að eigendaskipti urðu á veitingastaðnum Einari Ben við Ingólfstorg árið 1998.
Ólöf kveðst ánægð með að Hvítabjörninn sé loksins fundinn en hann hangir nú uppi á vegg á heimili og virðist vera í fínu lagi.
„Ég hélt hreinlega bara að þessu hefði verið fargað,“ segir Ólöf í samtali við Morgunblaðið, en það það kom henni virkilega á óvart hversu fljótt verkið fannst, eða sama dag og blaðið kom út á laugardag.
„Ég bjóst nú ekki við að neitt myndi gerast og finnst þetta vera kraftaverk. Og hvað gerðist þarna inni á milli getur verið önnur saga, hvernig hvítabjörninn hefur farið á milli eigenda og svo líka hvort ég endurheimti verkið, við erum bara ekki komin svo langt,“ segir Ólöf.
Í viðtali í sunnudagsblaðinu sagðist Ólöf hafa hugsað annað slagið um verkin og þegar yfirlitssýning var haldin á verkum hennar á Kjarvalsstöðum árið 2019 gerði hún tilraun til að hafa uppi á þeim, án árangurs.
Hvíti fjallrefurinn, sem einnig var á veitingastaðnum á sínum tíma, er þó enn ófundinn.
„Ég er mjög sæl með að björninn skuli vera fundinn og ég bara vona að hitt finnist líka,“ segir Ólöf að lokum.