Kærunefnd útboðsmála hefur ógilt útboð Ríkiskaupa um öflun loftmynda, fyrir hönd umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Ríkiskaupum er þar með gert að bjóða innkaupin út að nýju með lögmætum hætti auk þess sem ráðuneytinu og Ríkiskaupum er gert að greiða Loftmyndum ehf. milljón krónur í málskostnað, en fyrirtækið Loftmyndir kærði útboðið til kærunefndarinnar.
Útboðið miðaði að því að koma á fót gagnvirku innkaupaferli fyrir stafræna loftmyndatöku af Íslandi.
Í rökstuðningi kærunefndarinnar fyrir ógildingunni kemur fram að ósamræmi hafi verið á milli skilmála lokaðs útboðs og þess sem auglýst var á fyrri stigum. Á fyrri stigum var áhugasömum gert að skila inn þátttökubeiðni, en þeir sem skiluðu inn slíkri beiðni fengu síðan aðgang að lokuðu útboði innan gagnvirka innkaupakerfisins.
Í kjölfar þess að hafa auglýst eftir þátttökubeiðnum og móttekið tilboð í lokuðu útboði innan kerfisins var skilmálum útboðsins breytt í verulegum atriðum. Taldi kærunefndin þessar breytingar í andstöðu við meginreglur útboðsréttar um jafnræði og gagnsæi enda ekki hægt að útiloka að fleiri fyrirtæki hefðu tekið þátt í útboðinu ef breytingarnar hefðu verið gerðar á fyrri stigum.
Af þessum ástæðum auk annarra sem raktar eru í úrskurðinum komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að svo verulegir annmarkar hefðu verið á útboðinu að óhjákvæmilegt væri að fallast á kröfur kæranda um að útboðið yrði ógilt og þar með lagt fyrir Ríkiskaup að bjóða út að nýju.