„Mjög mikið magn af olíu“

Stjórnvaldssektin sem Umhverfisstofnun lagði á Costco nemur 20 milljónum króna …
Stjórnvaldssektin sem Umhverfisstofnun lagði á Costco nemur 20 milljónum króna sem er 80% af hámarkssektarfjárhæð. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lærdómurinn er sá að huga ávallt vel að mengunarvörnum, bæði í fjárfestingum og viðhaldi. Þetta er stöðug vakt og þegar mengunarvarnir eru skipulagðar verður að taka mið af því hvers eðlis starfsemin er og hversu mikla möguleika hún hefur til þess að menga,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, um ákvörðun stofnunarinnar að beita Costco Wholesale Iceland stjórnvaldssektum. 

Upphæðin nemur 20 milljónum króna en Costco hagnaðist um 440 milljónir króna á síðasta ári og námu tekjur fyrirtækisins 22 milljörðum króna.

Hámarkssektarfjárhæð við brotum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er 25 milljónir króna.

„Við mátum þessa hámarksfjárhæð sem stofnunni er heimilt að beita, þetta eru um 80% af þeirri fjárhæð. Við litum til þeirra andmæla sem bárust. Þetta er náttúrlega mjög mikið magn af olíu, yfir 111 þúsund lítrar. Það er litið til þess að magnið er umtalsvert og það er ljóst að það hefur farið út í fráveitukerfið. Þetta hafði áhrif á íbúa einnig,“ segir Sigrún spurð út í ákvörðun um sektarfjárhæðina. 

Hún segir ljóst að ekki hafi verið nægileg festa í eftirlitskerfinu hjá Costco.

Ekki reiknað út í krónum

Einnig var litið til samstarfsvilja Costco og metur Umhverfisstofnun það svo í ákvörðun sinni að fyrirtækið hafi sýnt mikinn samstafsvilja. Sömu sögu hafi ekki verið að segja um samskipti milli fyrirtækisins og heilbrigðiseftirlits.

Spurð út í það segir Sigrún að það hafi ekki haft bein áhrif á ákvörðun stofnunarinnar. 

„Þetta er ekki reiknað út í krónum. En auðvitað hjálpar það vinnu málsins hjá okkur að það er svarað nokkuð greiðlega. Það gekk eitthvað treglegar í upphafi málsins. Þetta er auðvitað mat. Aðalatriðið er bara þetta, að passa vel upp á efni eins og olíu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert