Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir hættubrot og brot gegn lögum um brunavarnir og þannig stofnað lífi og heilsu átta manna í háska. Rúv greinir frá.
Í umfjöllun Rúv segir að í ákærunni komi fram að maðurinn hafi látið útbúa búseturými í atvinnuhúsnæði við Þverholt 18 án tilskilinna leyfa og án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi brunavarnir. Þar segir einnig að í húsinu hafi verið bráð íkveikjuhætta.
Saksóknari telur að með þessu hafi maðurinn stofnað lífi og heilsu þeirra átta manna sem þarna bjuggu í augljósan háska.
Maðurinn hefur áður verið dæmdur í 11 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik. Var honum þá gert að greiða ríkissjóði 111 milljónir króna.
Málið verður þingfest um miðjan næsta mánuð í Héraðsdómi Reykjaness.