Samningur ekki viljayfirlýsing

Bjarni Benediktsson, Pawel Bartoszek og Davíð Þorláksson
Bjarni Benediktsson, Pawel Bartoszek og Davíð Þorláksson Samsett mynd

„​Það er rétt að benda á það að þessi sáttmáli er samningur en ekki viljayfirlýsing, þannig að það sem þar stendur þarf að nálgast af nokkurri alvöru​,“ segir Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, um ummæli Bjarna Benediktssonar, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, í Dagmálum. 

Í þættinum var Bjarni spurður hvort til væru fjármunir fyrir höfuðborgarsáttmálanum í heild sinni. Bjarni svaraði að ef verkefnið snerist enn þá um það sem ríkisstjórnin teldi það snúast um árið 2019, þá væri það líklega vel leysanlegt.

Hanna borgarlínuna í Kópavogi Skiptistöðin í Hamraborg er í dag …
Hanna borgarlínuna í Kópavogi Skiptistöðin í Hamraborg er í dag mjög mikilvæg stöð fyrir Strætó. Hún verður áfram mikilvæg þegar borgarlínan hefur tekið til starfa. mbl.is/Sigtryggur Sigtryggsson

Verkefnið verulega vanáætlað 

Bjarni sagði það verða að koma smám saman í ljós hvort verkefnið hafi verið verulega vanáætlað, þ.e. markmið um einstaka framkvæmdir.

Nefndi hann stokkinn við Sundabraut, á Sæbraut, sem dæmi um stórkostlega vanáætlaða framkvæmd, líkt og fjallað hefur verið um. Bjarni sagði það þó ekki eina dæmið því nú væri að koma í ljós að margt annað reynist mun dýrara en vonast var til.

Þá tók Bjarni það sérstaklega fram að hann væri ekki að tala um verðlagsuppfærslur heldur kostnaðarmatið líkt og það er sett fram í dag.

Sagði hann tölurnar slíkar að endurskoða þyrfti allar forsendur fyrir samkomulaginu, enda sé langt frá því að fjármálalegar forsendur höfuðborgarsáttmálans geti gengið upp.

Treystir því að fjármálaráðherra standi við sitt

Pawel segir í samtali við mbl.is að í öllum samningum séu ákvæði um að fólk geti sest niður og rætt saman um forsendur eða atriði sem hafa breyst. 

„En það er enginn áhugi hjá mér – og ég held að ég tali fyrir fleiri í borgarstjórn – að hverfa frá þeim hugmyndum og þeim atriðum sem sett eru fram í sáttmálanum,“ bætir hann við.

Í því samhengi segir Pawel að honum finnist að bæði ríki og sveitarfélög eigi að gera sitt til þess að standa við áform sáttmálans, enda uppbygging borgarlínu, hjólastíga og innviða fyrir hefðbundna umferð einkabíla samkvæmt áætluninni af hinu góða.

„Ég treysti því að fjármálaráðherra vinni að þeim hluta sem snýr að honum. Til dæmis að því að fjármagna þann hluta samkomulagsins sem snýr að sérstökum umferðar- og flýtigjöldum. Nú eða finni aðrar leiðir til að fjármagna þá þætti sem sáttmálinn kveður á um,“ segir Pawel.

Verkefnið komið vel á veg 

Pawel minnir á að verkefnið sé komið vel á veg. Á grundvelli sáttmálans er búið að fara í vegaframkvæmdir og byggja hjólastíga um alla borg, auk þess sem ýmsar aðrar framkvæmdir eru í bígerð. Þá er hönnun borgarlínu komin vel á veg og víða komin inn í deiliskipulag. „Við erum á fullri siglingu,“ segir Pawel.

„Ég ætla ekki að tjá mig um það hvort ég sé sérstaklega miður mín eða ekki vegna ummælanna,“ segir Pawel aðspurður og bætir við:

„Ég tel þetta vera part af – að þessi ummæli séu svona til notkunar innan flokks ráðherrans – og sé partur af þeirri spennu sem þar ríkir nú um stundir vegna síversnandi fylgis í könnunum.“

Unnið að því að uppfæra sáttmálann

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir rétt að kostnaðurinn við sáttmálann hafi verið verulega vanáætlaður. Hann segir verðlag jafnframt hafa hækkað mikið síðan og því sé eðlilegt að staldra við og uppfæra sáttmálann á þessari stundu.

Af þeirri ástæðu ákváðu ríki og sveitarfélögin að uppfæra sáttmálann líkt og tilkynnt var um í mars. Hefur sú vinna staðið yfir síðan þá og vonir standa til þess að henni ljúki í nóvember. Áætlanirnar verða þannig uppfærðar og þannig að til séu raunhæfar áætlanir, segir Davíð.

„Síðan er það stjórnmálamannanna að ákveða á hve löngum tíma og með hvaða hætti uppfærður sáttmáli verður, svo vinnum við eftir því áfram,“ segir Davíð að lokum.

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, var ekki tilbúinn til að veita viðtal vegna málsins þegar mbl.is hafði samband við hann. Kvaðst hann vilja kynna sér málið betur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert