Sex ára deilum vegna Porsche-jeppa lokið

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert Bílabúð Benna að greiða Ólöfu Finnsdóttur …
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert Bílabúð Benna að greiða Ólöfu Finnsdóttur tæpar 700 þúsund krónur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert Bílabúð Benna að greiða Ólöfu Finnsdóttur, skrifstofustjóra Hæstaréttar, tæpar 700 þúsund krónur vegna bifreiðagjalda sem hún þurfti að greiða eftir að hafa rift kaupsamningi á bíl sem hún keypt hjá Bílabúð Benna.

Allir dómarar héraðsdóms viku sæti í málinu, en Helgi Sigurðsson, eiginmaður Ólafar, er dómari við dómstólinn og var því um sérstakar kringumstæður að ræða. Það kom því í hlut Einars Karls Hallvarðssonar, dómara við Héraðsdóm Suðurlands og fyrrverandi ríkislögmanns, að dæma í málinu.  

Kvartaði undan óþef í bílnum

Málið á sér nokkurn aðdraganda, en fyrir rúmum sex árum síðan festi Ólöf kaup á Porsche-jeppa hjá Bílabúð Benna. Þegar hún hafði átt bílinn í tvö ár tók hún eftir galla í vatnsrennsli bílsins sem olli meðal annars skemmdum á teppum bílsins og mikilli ólykt innan hans. Í kjölfarið kvartaði hún til bílabúðarinnar og vildi rifta kaupunum á bílnum. 

Bílabúðin var andfallin riftun kaupsamningsins og sagðist ekki hafa fengið tækifæri til þess að nýta rétt sinn til úrbóta áður en kaupunum var rift. Þá hafi hún vegna sérstakra aðstæðna átt rétt á fleiri tilraunum en tveimur til þess þess að gera við bílinn vegna þess að um hafi verið að ræða óverulegan galla. 

Að lokinni málsmeðferð staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms sem kvað á um að ekki væru forsendur fyrir því að líta svo á að sérstakar aðstæður hefðu verið fyrir hendi sem réttlættu frekari tilraunir til úrbóta. Úr varð að bílabúðinni var gert að endurgreiða jeppann, að frádregnum ákveðnum afföllum. 

Bílabúðinni gert að endurgreiða gjöldin

Deilunum milli Ólafar og Bílabúðar Benna lauk þó ekki með endurgreiðslu jeppans, en eftir að Ólöf höfðaði mál gegn bílabúðinni og kaupsamningunum hafði verið rift, hélt hún áfram að greiða þau gjöld sem skráð voru á hana sem eigandi jeppans. 

Gjöldin námu 691 þúsund krónum sem Ólöf taldi að bílabúðin ætti að greiða vegna þess að kaupsamningurinn var ekki lengur í gildi og hún því ekki eigandi bílsins. Héraðsdómur féllst á kröfu Ólafar og mun það því falla í hlut Bílabúðarinnar að endurgreiða Ólöfu bifreiðargjöldin með dráttarvöxtum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert