Nokkur umræða er meðal fluglækna víða um heim að hækka hámarksaldur flugmanna til að starfa í atvinnuflugi. Hámarksaldurinn í dag er 65 ár.
Frá þessu greinir Þengill Oddsson, yfirlæknir á heilbrigðisskor Samgöngustofu, í nýjum þætti Flugvarpsins, hlaðvarpsþætti um flugmál.
Þengill segir það mikla sóun á góðri reynslu flugmanna að skikka þá alla til að hætta 65 ára. Heilsa manna í dag sé allt önnur og betri en áður var og þar að auki séu mun betri tæki og aðstaða til að fylgjast náið með heilsufari flugmanna. Flugmálayfirvöld á Nýja Sjálandi eru þegar byrjuð að feta þessa leið og ætla megi að fleiri muni fylgja þeirra fordæmi á næstunni.
„Þessu verður breytt það er ekki spurning. Ég reikna með að á næstu 3-4 árum verði hámarksaldur flugmanna í atvinnuflugi kominn upp í 67 til 70 ár,“ segir Þengill í þættinum.
Hægt er að hlusta á þáttinn á öllum helstu hlaðvarpsveitum.