„Þetta er staðan í dag“

Eldsupptök við Hvaleyrarbraut enn óljós.
Eldsupptök við Hvaleyrarbraut enn óljós. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Rannsóknarlögreglan hefur ekki upplýst okkur um upptök eldsins. Umfram það sem fjallað er um í fjölmiðlum. Ég tel að þeir séu enn að meta stöðuna, án þess að vita það,“ segir Ævar Sigmar Hjartarson, formaður húsfélagsins við Hvaleyrarbraut 22, í samtali við mbl.is

Eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði fyrr í mánuðinum. Upptök eldsins eru enn óljós, en Helgi Gunnarsson, lögreglufulltrúi í Hafnarfirði, sagði í samtali við mbl.is á laugardag, að lögregla þyrfti að ræða við eigendur og íbúa hússins til að fá betri mynd af atburðinum. 

Gera þetta saman 

Ævar segir eðlilegt að lögregla taki sinn tíma. Sjálfur hefur hann boðað til fundar húsfélagsins á miðvikudag, þar sem hann hyggst fara yfir stöðuna með öðrum eigendum hússins. Hann segir að enn eigi eftir að kanna marga vinkla á þessu máli.

„Það er einmitt tilefni fundarins á miðvikudag að vera með svona samráðsfund svo að fólk sé upplýst og geti fengið svör við einföldum spurningum á staðnum,“ segir Ævar. 

Nefnir Ævar til að mynda framtíð húsnæðisins og mismunandi tjón eigenda. Þá hyggst hann jafnframt reyna að efla liðsandann, þétta hópinn hjá eigendum og veita upplýsingar um hvert það eigi að snúa sér í næstu skrefum. 

Það er betra í svona samfélagi að það séu færri sem hafa yfirsýn utan um öll málin með upplýstu samþykki eigenda, þannig að það sé ekki hver og einn í sínu horni. Við erum að reyna að gera þetta saman þetta er það stórt húsnæði og mikið um sig,“ segir Ævar sem vonast til þess að allir verði vel upplýstir að fundinum loknum. 

Upplýsingarit til að dreifa

Aðspurður segir Ævar greinilega vanta einblöðung eða upplýsingarit til að dreifa þegar stórbruni verður. Þó honum finnist fólk í sjálfu sér ekki illa upplýst, þá segir hann ansi margt fara af stað þegar svona atburður gerist. 

Því myndi Ævar vilja sjá miðlægan gagnagrunn þar sem fólk getur farið á einn stað og fengið allar upplýsingar. 

„Það voru allir að vinna sína vinnu en þetta er stórt. Það vantar mikið upp á að allir séu vel upplýstir og rólegri hvað það varðar. Þetta er ekki alveg eins og maður hefði kosið að þetta gæti farið,“ segir hann. 

Brunabótamat áætlað í lok september

Ævar segir tryggingarfélögin áætla að brunabótamatið, eða skýrsla frá þeim, muni liggja fyrir í fyrsta lagi í lok september. 

„Svo getur það dregist en það er allavega komin einhver mynd á það.

Þetta er staðan í dag.“ segir Ævar að lokum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert