Hringferð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, lýkur í dag, 29. ágúst, með rafrænum fundi í beinni útsendingu og hefst hann kl. 17:00. Á opnum samráðsfundum sem haldnir hafa verið vítt og breitt um landið hafa málefni fatlaðs fólks verið til umfjöllunar.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu hér fyrir neðan, en einnig er hægt er að horfa á fundinn með íslenskri rittúlkun hér.
Fram kemur í tilkynningu að fundaröðinni sé ætlað að tryggja milliliðalaust samtal um það sem fólki sé efst í huga þegar málefni fatlaðs fólks beri á góma.
„Þátttaka hefur verið góð og afar góðar umræður skapast. Umræðurnar og ábendingarnar sem fram hafa komið eru mikilvægt innlegg inn í gerð landsáætlunar sem nú stendur yfir.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli lögfestur á kjörtímabilinu. Undir lok árs í fyrra var hleypt af stokkunum umfangsmikilli vinnu við gerð áðurnefndrar landsáætlunar til að tryggja farsæla innleiðingu samningsins.
Grundvallarhugmyndin er sú að fatlað fólk, hagsmunasamtök þess, ríki, sveitarfélög og almenningur vinni saman sem jafningjar að því að móta tillögur að verkefnum sem bæta stöðu fatlaðs fólks og tengjast samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“
Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á vef Stjórnarráðsins.