Biðja fólk um að yfirgefa svæðið

Brennisteinsvetnismengun getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum.
Brennisteinsvetnismengun getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur ákveðið að loka vegum í kringum Skaftá og biðja fólk um að yfirgefa svæðið vegna gasmengunar og vatnavaxta við Skaftá.

Fyrr í dag var óvissustigi almannavarna lýst yfir vegna Skaftárhlaups, en brennisteinsvetnismengunar getur gætt þar sem hlaupvatn kemur undan jökli. Mengunin getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum auk þess sem árnar geta flætt yfir bakka og vegi sem liggja þeim nærri.

Loka vegum

Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnaárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir og hefur lögregla sett lokunarhlið á eftirfarandi vegi: 

  • Landmannalaugar inn á Fjallabak-nyrðra inná F-208
  • Skaftártungnavegur (vegur 208) frá Búlandi
  • Inn á Álftavatnskrókinn á vegi F-210 inná  F-233
  • Vestan við vað yfir Hólmsár gatnamót F-210 og F-232
Hér má sjá veglokanir á svæðinu á korti Vegagerðarinnar.
Hér má sjá veglokanir á svæðinu á korti Vegagerðarinnar. Kort/Vegagerðin

Ekki hægt að tryggja að skilaboð berist

Skilaboðin sem send eru í síma almennings eru bæði send á íslensku og ensku og eru eftirfarandi: 

„Vegna hættu á gasmengun og vatnavöxtum við Skaftá (Skaptárkatli) ert þú beðin/n um að yfirgefa svæðið. Búast má við umtalsverðum vatnavöxtum og því geta ár og lækir flætt yfir bakka sína og vegir farið undir vatn. Ef þú ert vestan Hólaskjóls er best að rýma í átt að Landmannalaugum.“

Vakin er athygli á því að skilaboðin geti borist í síma utan við skilgreint svæði, en þá er einnig minnt á að ekki sé hægt að tryggja að skilaboð berist í alla síma. Þrátt fyrir þessa annmarka hafa SMS-skilaboðin gagnast vel og þjónað sínum tilgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert