Costco bendir á Olíudreifingu

Á annað hundrað þúsund lítrar af olíu láku í umhverfið.
Á annað hundrað þúsund lítrar af olíu láku í umhverfið. Árni Sæberg

Smásölurisinn Costco segir í skýringum sínum til Umhverfisstofnunar að ákvörðun Olíudreifingar, sem sér um viðhald á bensíndælum fyrirtækisins, um að aftengja öryggisnema hafi leitt til þess að á annað hundrað þúsund lítrar af díselolíu fór í fráveitukerfi Hafnafjarðarbæjar. 

Þetta kemur fram athugasemdum Costco í úrskurðarbréfi Umhverfisstofnunar þar sem tekin var ákvörðun um að sekta Costco um 20 milljónir króna vegna umhverfisslyss sem varð þegar díselolía flæddi óhindruð í umhverfið. 

Lítil umhverfisáhrif 

Í bréfinu segir að Costco uni niðurstöðunni en sektarupphæðinni er mótmælt og sagt að lítil sem engin umhverfisáhrif hafi orðið af lekanum.  

Þá bendir fyrirtækið á að það hafi verið með þjónustusamning við Gilbarco sem sér um viðhald á bensíndælum Costco víða um heim. Hér á landi var svo Olíudreifing með samning við Gilbarco  um viðhald á dælunum. 

Fram kemur í skýringum Costco að starfsmaður Olíudreifingar hafi tengt fram hjá öryggiskerfi Gilbarco sem leiddi til þess að olía lak í lengri tíma. Starfsmenn Costco hafi ekki verið meðvitaðir um lekann fyrr en seint og um síðar meir þrátt fyrir að Umhverfisstofnun telji annað. 

Hafi ekki vitað um lekann 

„Auk þess andmælir Costco því að starfsmenn fyrirtækisins hafi verið grandsamir um að starfsmaður Olíudreifingar hefði tengt fram hjá öryggiskerfi Gilbarco. Costco staðfestir að félagið og starfsmenn þess hafi ekki komist að lekanum fyrr en 30. desember 2022, eftir að olíulekinn og orsök hans voru uppgötvuð og rannsökuð. Costco telur þetta hafa þýðingu við mat á alvarleika brots skv. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 7/1998 enda var félagið og starfsmenn þess sannarlega ómeðvitaðir um að kerfið hefði verið framhjátengt og þ.a.l. um þá hættu sem því fylgdi,“ segir í athugasemdum Costco í bréfinu þar sem finna má úrskurð Umhverfisstofnunar. 

Starfsmaður olíudreifingar er sagður hafa aftengt öryggi.
Starfsmaður olíudreifingar er sagður hafa aftengt öryggi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert