Fengu 5 daga til að skipuleggja skólahald

Engin kennsla er í húsnæði Myllubakkaskóla, út af framkvæmdum vegna …
Engin kennsla er í húsnæði Myllubakkaskóla, út af framkvæmdum vegna myglu- og rakaskemmda í húsnæðunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólastjórnendum Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ var tilkynnt með fimm daga fyrirvara um að færanlegar kennslustofur væru ekki tilbúnar til kennslu. Stjórnendur höfðu því einungis um eina vinnuviku til þess að skipuleggja skólahald fyrir um 350 nemendur. 

Engin kennsla er í húsnæði tveggja stórra skóla í sveitarfélaginu, Myllubakkaskóla og Holtaskóla, út af framkvæmdum vegna myglu- og rakaskemmda í skólunum. Alls eru um 750 nemendur skráðir í skólana tvo.

Nýju skólabúðirnar áttu að vera tilbúnar fyrir 21. ágúst. Fimmtudaginn 17. ágúst fengu skólastjórnendur skólanna upplýsingar um að skólastofurnar yrðu ekki tilbúnar fyrr en eftir þrjár til fimm vikur.

Hlynur Jónsson, skólastjóri í Myllubakkaskóla, segir í samtali við mbl.is að degi síðar var starfsfólk upplýst um stöðu mála og í kjölfarið foreldrar nemenda. 

„Þannig að við höfum í rauninni vikuna þar á eftir til skipulagningar, sem eru þá fimm starfsdagar en áttu í raun bara að vera tveir upphaflega,“ segir Hlynur en skólasetningu var seinkað í skólanum þar til í gær. 

Byrjar ágætlega 

Hvernig er staðan í dag hjá ykkur?

„Þetta er að ganga upp. Það eru bara svona ýmsir hnökrar á skipulaginu eins og gengur og gerist, en það eru allir byrjaðir í skólanum og allir komnir með sína töflu,“ segir Hlynur og bætir við að skólahald virðist byrja ágætlega. 

Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið á laugardag að tvísetið verði í svokallaðri íþróttaakademíu þar sem nemendur á miðstigi verða á morgnana og nemendur á elsta stigi eftir hádegi. Unglingarnir verði þannig í skólanum frá klukkan 12 til 15, sem foreldrar hafa bent á að sé helmingur lögbundins náms. Þá er enn sem komið er börnum á elsta stigi ekki boðið upp á hádegismat, sem þau eiga rétt á.

Skilur vel óöryggið

Anita Engley Guðbergs­dótt­ir, verk­efna­stjóri hjá for­eldra­fé­lög­um grunn­skóla í Reykja­nes­bæ, sagði í sam­tali við mbl.is í síðustu viku að for­eldr­ar væru reiðir út í bæj­ar­yf­ir­völd vegna ástands­ins. 

Hlynur segist skilja vel óöruggi á meðal starfsfólks, og þá sérstaklega foreldra.

Hann segir marga hafa starfað lengi hjá skólanum og að um samheldinn hóp sé að ræða. 

„Auðvitað hefur þetta áhrif – ég segi það ekki, það gerir það – en við reynum að hlúa að hvor öðru í tengslum við þetta og það hefur gengið ágætlega. En eins og allir þekkja sem hafa staðið í stórum breytingum og áföllum þá hefur þetta áhrif á alla í tengslum við það.“

Þið bíðið þá bara eftir þessum kennslustofum?

„Já, í raun og veru. Við erum búin að skipuleggja allt skólastarfið okkar með það að sjónarmiði að vera í þeirri aðstöðu. Þannig að það skipulag er allt tilbúið. Þannig að við þurfum bara að fá tíma til að koma okkur fyrir þar og geta þá hafið nokkurn veginn eðlilegt skólastarf. Ef eðlilegt mætti teljast í þessum kringumstæðum.“

Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri Holtaskóla, kaus að tjá sig ekki um málið við mbl.is. 

„Leita af einhverjum blóraböggli

mbl.is leitaði svara hjá umhverfis- og skipulagssviði um hver á vegum bæjarins bar ábyrgð á því að fylgjast með framgangi verkefnisins.

Í skriflegu svari sagðist Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðstjóri umhverfissviðs, „alveg [geta] tekið það á mig sem sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdarsviðs ef það er verið að leita að einhverjum blóraböggli“.

Hann sagði skýringar vera þær að ekki sé um fyrstu einingar sem bærinn fær frá tilgreindum aðilum, „en í fyrsta skiptið sem við fáum þetta ekki tilbúið frá einum og sama aðilanum“.

Því þurfti að bíða eftir að samsetningarnar voru samsettar og búið að ganga frá öllum flasningum og loftum þannig að iðnaðarmenn kæmust inn. 

Þeir skila á réttum tíma en mínir iðnaðarmenn komast ekki inn til að klára sina vinnu fyrr en samsetningu er að fullu lokið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert