Þegar listamaðurinn Curver Thoroddsen kom að hljóðinnsetningu sinni í bílakjallara Hamraborgar í gær tók hann eftir því að klippt hafði verið á víra hátalaranna sem gegndu veigamiklu hlutverki í sýningunni Andskotans hávaði.
Sýningin er hluti af Hamraborg Festival sem stendur yfir þangað til á morgun.
Í ár er þema hátíðarinnar pönk, en með hljóðinnsetningunni hugðist Cuver heiðra íslenskt pönk með því að stilla upp átta hátölurum sem spiluðu hver sinn stefbút úr íslensku pönklagi. Sýningin fer fram í bílakjallaranum í Hamraborg, „þar sem pönkararnir héngu oft í gamla daga,“ að sögn Curvers.
„Ég kom í gær til þess að slökkva á verkinu og þá var búið að klippa á vírana,“ segir Curver sem brá í brún þegar hann sá að skemmdir höfðu verið unnar á hljóðinnsetningunni.
„Þá hófust vangaveltur um það hvort þetta hefði verið pirraður nágranni eða kannski einhver sem hataði pönktónlist,“ bætir Curver við.
Curver fékk þó skjótt svar við vangaveltum sínum, en í dag bárust honum þær upplýsingar að um óheppilegan misskilning hefði verið að ræða.
„Maðurinn sem klippti á vírana var að hringja í mig, en hann er nefnilega umsjónarmaður húsnæðisins í Hamraborg,“ segir Curver. „Þetta var alls ekki gert í illu, heldur hafa skilaboðin um hátíðina greinilega ekki náð inn til umsjónarmannsins sem hafði engar upplýsingar um af hverju þetta væri þarna og klippti því á vírana.“
Curver segir það gleðitíðindi að einungis hafi verið um samskiptabrest að ræða, en hann segir sýninguna nú þegar komna aftur í fyrra horf.
„Það var einfaldara að laga þetta en á horfðist. Ég þurfti að tengja vírana sem búið var að klippa saman aftur, en þetta var einföld gerð smárra víra þannig að það var einfalt að laga þetta,“ segir Curver.
„Pönkið lifir góðu lífi í Hamraborg,“ segir Curver loks, en sýningin Andskotans hávaði verður opin í Hamraborg til klukkan tíu annað kvöld. Gefst þá gestum og gangandi færi á því að hlýða á gamla slagara í Kópavogi sem er að sögn Curvers „vagga pönksins á Íslandi.“