Netárás á Brimborg og gögn tekin í gíslingu

Brimborg varð fyrir alvarlegri netárás í nótt.
Brimborg varð fyrir alvarlegri netárás í nótt. Ljósmynd/Brimborg

Brimborg varð fyrir netárás í nótt. Gögn voru tekin í gíslingu en unnið hefur verið að því að endurheimtagögnin. Umfang árásarinnar er enn ekki þekkt á þessu stigi.

Segir í tilkynninu frá bílaumboðinu Brimborg að um leið og starfsmenn Brimborgar hafi orðið árásarinnar varir hafi helstu sérfræðingar landsins verið fengnir að borðinu til að greina umfangið, í hverju öryggisbresturinn fólst og koma kerfum aftur í gang.

Persónuvernd hefur verið tilkynnt um málið auk netöryggissveitarinnar CERT-IS.

Gögnin ekki glötuð

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir í samtali við Rúv að hann telji gögn fyrirtækisins ekki glötuð. Umfangið og afleiðingar árásarinnar skýrist væntanlega að fullu á morgun.

Allar starfsstöðvar Brimborgar eru opnar hvort sem eru verkstæði, varahlutir, bílaleiga, eða sala nýrra og notaðra bíla og eru starfsmenn staðráðnir í að veita bestu mögulegu þjónustu í ljósi aðstæðna.

Egill segir við Rúv að viðskiptavinir hafi sýnt skilning á stöðunni.

Brimborg geymir fjölda upplýsinga um viðskiptavini

Ekki liggur fyrir hvaða upplýsingar hafa verið teknar í gíslingu en búið er að tilkynna málið til Persónuverndar.

Í persónuverndarstefnu Brimborgar kemur fram að bílaumboðið „stendur að söfnun, skráningu, vinnslu, vistun og miðlun persónugreinanlegra upplýsinga um viðskiptamenn sína og einstaklinga sem eiga í samskiptum við fyrirtækið á einn eða annan hátt“.

Í stefnunni kemur einnig fram að Brimborg safni eftirfarandi persónuupplýsingum um viðskiptavini sína:

  • Nafn
  • Kennitala
  • Heimili
  • Póstnúmer
  • Staður
  • Sími
  • Netfang
  • Ökuskírteinisnúmer við leigu bíla eða reynsluakstur
  • Fyrirspurnir um ökutæki, þjónustu, leigu bíla, varahluti, dekk og aðrar vörur
  • Samskiptasögu vegna fyrirspurna
  • Hrós, ábendingar og kvartanir sendar til Brimborgar
  • Reynsluakstur á ökutækjum hjá Brimborg eftir skráningarnúmeri
  • Um skráningarnúmer keyptra og seldra ökutækja
  • VIN númer (auðkennisnúmer) og árgerð seldra ökutækja
  • Um þjónustusögu ökutækja
  • Viðskiptasögu um kaup á ökutækjum, varahlutum og þjónustu og leigu ökutækja
  • Um hvaða gjaldmiðill er notaður við kaup eða leigu á ökutækjum
  • Um raunverulega eigendur viðskiptavinar ef viðskiptavinur er lögaðili
  • Um prókúruhafa eða aðra þá sem koma fram fyrir hönd viðskiptavinar
  • Um stjórnmálaleg tengsl, skv. kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
  • Úr viðurkenndum persónuskilríkjum, skv. kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert