Skaflinn í Esjunni horfinn á braut

Skaflinn í Gunnlaugsskarði var allur horfinn síðdegis á fimmtudag en …
Skaflinn í Gunnlaugsskarði var allur horfinn síðdegis á fimmtudag en hann hvarf síðast haustið 2019. Ljósmynd/Árni Sigurðsson

„Ég tók þessa mynd seinni partinn í gær með aðdrætti úr botni Kollafjarðar,“ segir Árni Sigurðsson veðurfræðingur í tölvupósti til mbl.is fyrir helgi þar sem hann bendir á að hinn annálaði skafl í Gunnlaugsskarði hafi verið horfinn með öllu á fimmtudaginn.

Ræddi veðurfræðingurinn við mbl.is á mánudaginn fyrir rúmri viku þar sem hann var staddur í skoðunarferð við það sem þá var eftir af skaflinum og stiklaði þá á sögu hans í grófum dráttum, meðal annars að skaflinn hefði síðast horfið í september 2019 og þar á undan síðla hausts 2012.

Kvað Árni skaflinn hafa horfið reglulega fyrsta áratug aldarinnar en þar á undan líklega ekki síðan árið 1965 enda hafi kuldatímabil með hafís við land svo gengið í garð og staðið lengi á áttunda og fram á níunda áratug liðinnar aldar.

Uppfært:

Þegar Morgunblaðið skoðaði skaflinn klukkan 19:45 á föstudaginn reyndust um tveir fermetrar eftir af honum. Ræddi blaðið við Árna af því tilefni og taldi hann víst að skaflinn yrði allur horfinn á braut daginn eftir, það er á laugardaginn var.

Þessi arða af skaflinum reyndist eftir á föstudagskvöld en þá …
Þessi arða af skaflinum reyndist eftir á föstudagskvöld en þá spáði Árni Sigurðsson því að allt yrði farið í síðasta lagi um helgina. Morgunblaðið/Baldur Arnarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert