Lyfjastofnun hvetur þá sem lenda í vandræðum vegna skorts á ADHD-lyfinu Elvanse adult að leita til læknis til að fá ráðgjöf varðandi úrræði á meðan lyfjasendinga er beðið, að fram kemur á vef Lyfjastofnunar.
Lyfið hefur verið ófáanlegt í 30 mg og 50 mg styrkleika síðan í lok júlí en 70 mg eru enn fáanleg. Síðan tilkynning um skortinn barst hefur Lyfjastofnun, ásamt lyfjaheildsölum, unnið að því að fá birgðir til landsins og eru bæði skráð lyf og undanþágulyf væntanleg á næstu vikum í nokkrum mæli.
Gert er ráð fyrir að lyfið sé væntanlegt til landsins í 50 mg styrkleika í byrjun september, ásamt takmörkuðu magni undanþágulyfs fyrir báða styrkleika. Elevanse er væntanlegt til landsins í 30 mg styrkleika í byrjun október.
Samheitalyfið Volidax var markaðssett í ágúst en birgðir af því kláruðust fljótt og nýjar birgðir ekki væntanlegar aftur fyrr en í lok október.
Samkvæmt upplýsingum sem Lyfjastofnun hefur frá Sjúkratryggingum Íslands gilda núgildandi lyfjaskírteini fyrir Elvanse adult einnig fyrir undanþágulyf. Þurfi fólk hins vegar að skipta yfir í lyf með öðru virku efni getur heimilislæknir sótt um lyfjaskírteini.
Á vef Lyfjastofnunar er tekið fram að lyfjaheildsölum sé skylt að sjá til þess að birgðir og þar með framboð lyfja sé tryggt. Engu að síður geti ýmislegt orðið til þess að lyf skorti tímabundið þrátt fyrir að skyldum sé sinnt.
Ástæður geti m.a. verið vandkvæði í framleiðsluferli, skortur á efni sem þarf til framleiðslunnar, vandamál í flutningi, en líka aukin eftirspurn.
Aukist eftirspurn snögglega geti saxast verulega á birgðir, sérstaklega ef það sama á sér stað í nágrannalöndunum eins og raunin er nú.