„Þetta getur hamlað fólki mjög mikið“

Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, segir fátt hægt að …
Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, segir fátt hægt að gera fyrir fólk sem skorti ADHD-lyf. Samsett mynd

„Ég sé ekki hvaða aðrar ráðleggingar er hægt að gefa á meðan lyfið er ekki til,“ segir Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, varðandi skort ADHD-lyfsins Elvanse adult á landinu.

„Þetta getur hamlað fólki mjög mikið náttúrulega. Enda ætti enginn að vera á þessum lyfjum nema að þetta séu hamlandi einkenni,“ segir Karl í samtali við mbl.is. 

Lyfja­stofn­un hefur hvatt þá sem lenda í vand­ræðum vegna skorts á lyf­inu að leita til lækn­is til að fá ráðgjöf varðandi úrræði á meðan lyfja­send­inga er beðið, að því er fram kem­ur á vef ­stofn­un­arinnar.

Alls ekki gott að lyfin skorti

Karl segir það ekki óeðlilegt að Lyfjastofnun bendi fólki á að leita til læknis varðandi ráðleggingar enda fátt annað í stöðunni. Læknir hvers og eins þekki sinn sjúkling og geti því mögulega í einhverjum tilvikum ráðlagt önnur úrræði, þó svo að Karl efist um það. „En á meðan lyfið er ekki til þá er í raun ekkert annað sem er hægt að gera.“ 

Karl segir margar ástæður fyrir því að lyf skorti að hverju sinni en að hann geti ekki svarað fyrir ástæðu skortsins núna. „En það er auðvitað alls ekki gott að þessi lyf skorti.“

Ímyndar sér að skortur sé víða

Spurður hvort aukin eftirspurn á lyfinu gæti átt þátt í sök kveðst Karl ekki þora að segja til um það, en að hann ímyndi sér að þessi skortur sé víðar en á Íslandi. Vissulega hafi greiningum farið fjölgandi og sömuleiðis sá fjöldi fólks sem tekur lyfin, en það ætti þó ekki að skipta sköpum í stærra samhengi.

Ástæðan geti allt eins verið vandamál tengt flutningum líkt og kom upp á meðan Covid-faraldurinn herjaði á heiminn.

Mikil þreyta og auknir erfiðleikar

Aðspurður hvaða áhrif það hafi að klára lyfin kveðst Karl ímynda sér að það muni fyrst og fremst lýsa sér í þreytu hjá einstaklingum. 

„Ég ímynda mér að margir verði nú býsna þreyttir í nokkra daga á eftir og muni mögulega sofa meira og vera þreyttir í vinnunni og skólanum á daginn.“

Þegar fólk jafni sig á að hafa skyndilega hætt að taka lyfin muni hefðbundin ADHD-einkenni láta á sér bera á ný ásamt þeim erfiðleikum sem því fylgi í skóla, einkalífi og vinnu. Það geti til að mynda veri einbeitingar- og skipulagsörðugleikar og gleymska. 

„Sem var ástæðan fyrir að þau voru sett á lyfin til þess að byrja með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka