Gæsluvarðhald hefur verið framlengt yfir þremur mönnum sem grunaðir eru um að hafa reynt að smygla 160 kg af hassi til landsins með skútu.
Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, sem segir við mbl.is að gæsluvarðhald hafi verið framlengt til 15. september.
Mennirnir þrír hafa setið í varðhaldi í rúma tvo mánuði en þeir voru handteknir þann 24. júní, tveir þeirra um borð í skútunni fyrir utan Reykjanes og sá þriðji í landi skömmu síðar. Sá elsti er fæddur 1970 og sá yngsti árið 2002.
160 kíló af hassi fundust í skútunni og grunar lögreglu að fíkniefnin hafi verið flutt frá Danmörku og áætlaður áfangastaður hafi verið Grænland.
Rannsóknin er unnin í samstarfi við lögregluyfirvöld í Danmörku og Grænlandi.