Viðvaranir líklegar um helgina

Það stefnir í fyrstu haustlægð ársins.
Það stefnir í fyrstu haustlægð ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þokkalega djúp lægð verður yfir landinu aðfaranótt laugardags og segir Eiríkur Örn Jóhansson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, að líklega verði sett á gul veðurviðvörun vegna stormsins. 

„Það er svona dálítill haustbragur á henni,“ svarar Eiríkur spurður hvort að um sé að ræða fyrstu haustlægð ársins. 

Lægðin myndast á mörkum kalds og heits lofts við Grænland og verður að hans sögn þokkalega djúp. 

Mesta úrkoman verður aðfaranótt laugardags og aðeins fram eftir laugardegi. Hvassast veður á sunnan- og vestan til. 

Veðurstofan biðlar til landsmanna að ganga frá lausamunum í görðum sínum og hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Rofar til eftir helgi

Stefnir í gula viðvörun?

„Mér finnst nú ansi líklegt að það stefni í viðvaranir, já. Það er frekar hvasst í henni [lægðinni] og svo er náttúrulega árstíminn slíkur að samfélagsleg áhrif – sem við tökum alltaf með í reikninginn – eru kannski þau að það eru ekki allir undirbúnir fyrir þennan vindstyrk á þessum árstíma,“ segir Eiríkur og bætir við að landsmenn eigi þó eftir að sjá meiri vindstyrk er líður á haustið.  

Hann segir að í kjölfarið á skilunum taki við ákveðin suðvestanátt með skúrum, en þurrt verði að mestu norðaustan til. 

„Það lægir því ekkert fyrr en eftir helgi einhvern tímann, en það dregur vel úr vindi samt aðfaranótt sunnudags eða seint á laugardegi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert