Andlát: Halldór Árnason

Halldór Árnason.
Halldór Árnason.

Halldór Árnason lést á líknardeild Landspítalans 27. ágúst sl., sjötugur að aldri. Hann fæddist 18. mars 1953 í Stykkishólmi, sonur hjónanna Árna Helgasonar, póst- og símstjóra og fréttaritara Morgunblaðsins, og Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, kennara og póstafgreiðslumanns. Halldór varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1973. Hann lauk viðskiptafræði frá HÍ 1978 og meistaraprófi í hagfræði frá Uppsalaháskóla 1983.

Halldór starfaði lengstum hjá hinu opinbera og hafði þar fjölbreytt verkefni með höndum. Hann starfaði m.a. í menntamálaráðuneytinu, hjá Þjóðhagsstofnun og Námsgagnastofnun. Hann var skrifstofustjóri á fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í um áratug, eða til 1998, og skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu 2002-2010. Þar á milli var hann forstöðumaður stjórnsýslu- og fjármála hjá Hafnarfjarðarbæ. Að lokum starfaði Halldór hjá Samtökum atvinnulífsins, frá 2010 til 2018. Síðustu ár starfaði hann ötullega að ýmsum málefnum fyrir Stykkishólmsbæ, m.a. sem formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar. Þá var hann 1. varamaður í bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar á yfirstandandi kjörtímabili.

Undanfarin 50 ár var Halldór formaður í stjórnum fjölmargra félagasamtaka, svo sem innan Íslenskra ungtemplara, Bindindisfélags ökumanna, Drengjakórs Reykjavíkur og Þróunarfélags Snæfellinga. Hann lét mjög að sér kveða við að styrkja tengsl Íslendinga við Vesturheim og Íslendinga þar. Var formaður stjórnar Þjóðræknisfélags Íslendinga og stjórnar Snorrasjóðs stærstan hluta síðasta áratugar og er heiðursfélagi samtakanna. Hann skipulagði og stýrði fjöldamörgum ferðum á Íslendingaslóðir í Kanada og Bandaríkjunum fyrir fjölskyldur og stærri og smærri vinahópa.

Halldór lætur eftir sig eiginkonu, Önnu Björgu Eyjólfsdóttur, fjögur uppkomin börn og tvö barnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert