Bjartsýnn á að hægt verði að bjarga öllum gögnum

Netárásin hefur gríðarleg áhrif á starfsemi fyrirtækisins.
Netárásin hefur gríðarleg áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Ljósmynd/Brimborg

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, bindur vonir við að hægt verði að koma netkerfi fyrirtækisins aftur í gagnið í dag, eftir netárás sem fyrirtækið varð fyrir aðfaranótt þriðjudags. 

Unnið hefur verið að því að endurheimta gögnin frá því að starfsmenn fyrirtækisins urðu varir við árásina í gærmorgun. 

Gengið vel miðað við umfang

„Við fengum alla bestu sérfræðinga landsins til liðs við okkur strax í gærmorgun til að meta stöðuna og greina umfang árásarinnar,“ segir Egill. Sérfræðingarnir lögðu síðan fram áætlun um það hvernig kerfin yrðu sett upp aftur og gögn endurheimt. 

Sólarhringur er liðinn frá því að vinnan hófst og segir Egill ganga ótrúlega vel miðað við umfang verkefnisins. „Í morgun sýndist okkur þeir vera á áætlun og því vonumst við til þess að geta byrjað að nota hluta tölvukerfisins í dag,“ segir Egill ánægður með hversu vel hefur gengið miðað við aðstæður. 

Varúðarráðstafanir 

Netárásin hefur gríðarlega mikil áhrif á starfsemi fyrirtækisins enda reksturinn umfangsmikill og mikið af gögnum í daglegri notkun. Egill segir sérfræðingana þó greinilega vita hvað þeir eru að gera. „Þeir eru varkárir, númer eitt tvö og þrjú, til þess að missa ekki kerfið frá sér aftur,“ segir Egill. 

Þar af leiðandi hefur starfsfólk Brimborgar ekki geta notað tölvukerfið, sem Egill segir hafa truflandi áhrif á starfsemina víða. Nefnir hann dæmi þegar vantar tiltekinn varahlut, þá þarf að vera hægt að leita að vörunúmeri varahlutarins svo hægt sé að finna hann á lager fyrirtækisins. 

„Það er náttúrlega erfiðleikum háð þegar maður hefur ekki tölvukerfið, sem dæmi,“ segir Egill. 

„Nýta tækifærið“

Þrátt fyrir það er ýmislegt sem hægt er að gera. Brimborg hefur verið að afhenda fjölda nýja bíla, sem þá eru nýskráðir í öðrum tölvubúnaði, auk þess að selja notaða bíla. Á þeim starfsstöðvum þar sem ekki hefur verið hægt að vinna hafa starfsmenn nýtt „tækifærið“ og tekið til hendinni, segir hann.

„Það er verið að taka til í skúffum og jafnvel mála. Það er gaman að því, maður verður alltaf að sjá eitthvað jákvætt í öllu þó þetta sé ekki það sem maður óskaði sér,“ segir Egill, ánægður með sitt fólk. 

Vilja halda öllum upplýstum

Egill kveðst bjartsýnn á að hægt verði að bjarga öllum gögnum. Hann segir það þó verða að koma í ljós þegar vinnu sérfræðinganna er lokið. 

Spurður hvernig hans viðbrögð við árásinni hafi verið segist hann alltaf hafa búist að nokkru leyti við því að þetta gæti gerst. 

„Við höfum gengið í gegnum fullt af krísum, bankahrun, Covid-19 og fleira. Í grunninn er þetta í raun alltaf sama viðbragð, að passa að maður sé sjálfur inni í öllu og viti hvað er að gerast og að maður sé á staðnum til þess að taka ákvarðanir, svo ekki verði tafir á ákvarðanatöku,“ segir Egill og bætir við að frá því að Brimborg var stofnað hafi alltaf verið lagður metnaður í að veita upplýsingar. 

„Eðli hverrar krísu er að það er alltaf eitthvað nýtt til að takast á við. Við viljum þó gera þetta auðvelt gagnvart öllum og því leggjum við upp með að allir séu vel upplýstir,“ segir Egill að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert