Ábyrgðin „liggur algjörlega hjá Costco“

Árni Gunnarsson er framkvæmdastjóri Olíudreifingar.
Árni Gunnarsson er framkvæmdastjóri Olíudreifingar. Samsett mynd

„Það er alveg ljóst, eins og ákvörðun Umhverfisstofnunar ber með sér, að ábyrgðin á þessum leka liggur algjörlega hjá Costco,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar.

Í athugasemdum Costco í umsagnarbréfi Umhverfisstofnunar, þegar 20 milljón króna sekt var lögð á fyrirtækið, er sagt frá því að ein ástæða þess að á annað hundrað þúsund lítrar af díselolíu láku í umhverfið nærri bensínstöð Costco í Kauptúni sé sú að starfsmaður frá Olíudreifingu hafi aftengt öryggisnema í ágúst. Fyrir vikið hafi tölvukerfi ekki sent boð um leka.

Hefði mátt vera lekinn ljós í nóvember 

Árni bendir á að í skýrslu Umhverfisstofnunar komi fram að enginn leki hafi greinst í ágúst.

Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki orðið vart við leka 2. nóvember við eftirlit,  en 22. nóvember hafi komið fram í viðvörunarkerfi Costco að 50 cm þykkt lag af díselolíu væri í olíuskilju sem er tífalt magn á við það sem mældist sex dögum áður.

Það hafi gefið til kynna að eitthvað óeðlilegt væri að eiga sér stað. 

Á annað hundrað þúsund lítrar af díselolíu láku út í …
Á annað hundrað þúsund lítrar af díselolíu láku út í umhverfið. mbl.is/Árni Sæberg

Árni segir að frá þeim tíma hafi liðið langur tími þar til komið var í veg fyrir lekann. Heilbrigðiseftirlitið sagði Costco frá lekanum þann 30. desember sl. 

Hann telur að engu hefði breytt ef öryggisnemi hefði verið til staðar sem starfsmaður Olíudreifingar aftengdi í ágúst í fyrra. 

Býst jafnvel við bótakröfu 

Finnst Olíudreifingu að sér vegið í athugasemd Costco?

„Já, við getum ekki tekið undir hana og finnst niðurstaða Umhverfisstofnunar í samræmi við efni málsins,“ segir Árni. 

Að sögn Árna er ekki í gildi fastur samningur á milli Olíudreifingar og Gilbarco sem sér um rekstur og viðhald bensíndæla Costco víða um heim. Hins vegar er Olíudreifing kölluð til í tímavinnu þegar Gilbarco hefur ekki tök á að sinna bilanagreiningu og viðhaldi. 

Aðspurður segir Árni að Costco hafi ekki leitast eftir bótum til Olíudreifingar vegna málsins en hann á jafnvel von á því að til þess gæti komið. 

„Það má svo sem búast við því að þeir skoði það ef þeir telja sig í þessum rétti. Þeir hafa þó ekki farið fram á neitt slíkt og engar umræður átt sér stað,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert