Karl Arnar Karlsson, framkvæmdastjóri Loftmynda ehf., gagnrýnir harðlega að á tímum sparnaðar og aðhalds sé íslenska ríkið að reyna að bæta við sig nýjum verkefnum í beinni samkeppni við einkafyrirtæki.
Kærunefnd útboðsmála hefur ógilt útboð Ríkiskaupa um öflun loftmynda, fyrir hönd umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins, eins og Morgunblaðið greindi frá á mánudag.
Ríkiskaupum er þar með gert að bjóða út að nýju með lögmætum hætti auk þess sem ráðuneytinu og Ríkiskaupum er gert að greiða Loftmyndum milljón krónur í málskostnað, en Loftmyndir kærðu útboðið til kærunefndarinnar í maí.
Kæra loftmynda byggði á því að innlendum og erlendum fyrirtækjum væri í útboðinu mismunað, með viðbótargreiðslum sem greiða átti erlendum fyrirtækum fyrir áhættu vegna veðurs auk flutnings á búnaði og fólki til landsins. Þá voru gerðar tæknilegar kröfur í útboðinu sem innlendum fyrirtækjum var ómögulegt að uppfylla, segir Karl.
Af þessum sökum töldu Loftmyndir ljóst að tilboðin sem bærust í útboðinu myndu á engan hátt endurspegla endanlegan kostnað.
Karl segir kærunefndina hafa tekið undir þessi rök Loftmynda og úrskurðað útboðið ógilt.
Fyrirtækið Loftmyndir ehf. sérhæfir sig í loftmyndatöku, gerð myndkorta og landlíkana, uppsetningu og rekstri vefkortalausna auk skyldra verkefna. Fyrirtækið hefur verið starfandi hér á landi í um þrjátíu ár og þjónustar meðal annars mörg sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki.
„Allar stofnanir ríkisins hafa af loftmyndum okkar full afnot fyrir mun lægri kostnað en hefði fylgt væntanlegu útboði og það er ekkert sem kallar á að endurvinna verkefni sem þegar er búið að klára,“ segir Karl og veltir fyrir sér hvers vegna verið sé að bjóða út hluti sem þegar eru til. En þær loftmyndir sem til stóð að safna með útboðinu, eru þegar til af öllu Íslandi og af mun meiri gæðum.
„Í gegnum tíðina hafi komið og farið ráðherrar sem höfðu á þessum málum ýmsar skoðanir. Sumir vildu meina að ríkið ætti að sjá um loftmyndatöku en ekki náðist samstaða um slíkt þar sem verkið er mjög kostnaðarsamt. Það er svo af öllum stjórnmálaflokkum Sjálfstæðisflokkurinn sem ákveður að ríkisvæða þessa starfsemi,“ segir Karl undrandi á ákvörðuninni um útboðið.
Hann rifjar upp orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, frá árinu 2015 þegar gjaldfrjáls landupplýsingagrunnur var til umræðu á Alþingi.
Í ræðu sinni sagði ráðherrann „enga ástæðu fyrir okkur að ríkisvaldið sé í samkeppni við einkaaðila þegar þess er ekki þörf. Eðli málsins samkvæmt er markmið okkar að sjá til þess að til séu bestu upplýsingar en það er ekkert sjálfgefið að ríkið sé best til þess fallið að standa í því“.
„Notum ekki opinbert fé þar sem við þurfum þess ekki,“ sagði Guðlaugur enn fremur.
Í þessu samhengi hefur Karl jafnframt velt því fyrir sér hvaðan peningar til verkefnisins áttu að koma. Hann segir engar fjárveitingar til verkefnisins hafa verið í fjárlögum eða í fjármálaáætlun til næstu fimm ára.
„Hvaðan átti að galdra fram einhver hundruð milljóna, til þess að greiða fyrir þetta útboð?“ spyr Karl.
Vísar hann til skýrslu frá Landmælingum sem gefin var út árið 2019 þar sem fram kemur að kostnaður við verkefnið sé um 600-700 milljónir.
„Og eftir það árlegur viðhaldskostnaður 130-150 miljónir – og höfum í huga að þetta er kostnaðaráætlun,“ segir Karl og bætir við að núverandi samningur ríkisins við Loftmyndir ehf., um afnot af loftmyndum af öllu landinu, með öllum uppfærslum sem gerðar eru, sé lægri en áætlaður viðhaldskostnaður nýja ríkisgrunnsins.
Hann bendir einnig á að í útboðinu hafi dýrum verkliðum verið sleppt, sem íslenska ríkið ætlaði sjálft að bæta við sig.
Meðal annars með kaupum á tækjabúnaði og auknum mannafla, auk þess að taka á sig áhættuna vegna slæmra veðurdaga á myndatökutímabilinu, með því að greiða verktökum aukalega fyrir þá daga sem ekki yrði hægt að fljúga.
„Áhætta í loftmyndatöku á Íslandi er mjög mikil því veður eru oft erfið og allir Íslendingar þekkja sumur þar sem sjaldan eða aldrei skín sól. Það var því fyrirsjáanlegt að kostnaður við væntanleg tilboð yrði aðeins hluti af endanlegum kostnaði ríkissjóðs,“ segir hann.
„Það er með öllu óskiljanlegt hvað það er sem fær ráðherra, sem kemur úr stjórnmálaflokki sem talar fyrir ráðdeild í útgjöldum og niðurskurði báknsins, að ákveða að ríkisvæða starfsemi einkafyrirtækja, eyða skattfé í fullkominn óþarfa og blása út opinbera starfsemi.
Hingað til hefur hið opinbera ekki þurft að kosta krónu til við söfnun þessara gagna en tryggt sér afnot af þeim með lágmarkskostnaði, en þessu vill ráðherra málaflokksins nú breyta,“ segir Karl að lokum og bætir við að ráðherra hafi engum fyrirspurnum hans svarað.