„Það heldur áfram að vaxa með jöfnum en hægum takti,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um stöðuna á Skaftárhlaupinu. Ekki er búist við stóru hlaupi.
Mælingar við Sveinstind sýna að rennslið er nú um 720 m3/s samkvæmt óyfirförnum gögnum Veðurstofunnar, og segir Sigríður að of snemmt sé að segja til um hvort toppi hafi verið náð.
Hún segir rennslið vera áfram á uppleið, „þannig að við bara fylgjumst áfram með“.
Hingað til hefur Veðurstofan einungis fylgst með mælum en mögulega verður farið á svæðið til að taka sýni og rennslismælingar í dag.
Gervitunglamyndir sýna að upptök hlaupsins eru að öllum líkindum í eystri katlinum en Sigríður segir það þó ekki alveg ljóst.
Ekki hefur verið hægt að fljúga yfir svæðið vegna lélegs skyggnis og ekki er útlit fyrir að það skáni í dag.
„Ef það fer að aukast aftur mikið rennslið, og það margfaldast mikið, þá má nú alveg leiða líkum að því að það sé búið að hlaupa úr báðum kötlunum.“
Skaftárhlaup hafa komið með nokkuð reglulegu millibili undanfarin 50 ár.
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að á árabilinu 1955-2018 komu 28 hlaup úr eystri katlinum en hlaup úr þeim vestari eru tíðari. Úr honum komu 30 hlaup á tímabilinu 1972-2018.
Þá er fylgni á milli hámarksrennslis og tímans sem liðinn er frá síðasta hlaupi.
Í kjölfar lengsta hlés milli hlaupa úr eystri katlinum, 2010-2015, kom mesta Skaftárhlaup sem vitað er um í október 2015. Hámarksrennsli var þá 3.000 m3/s.