„Já, ég hef raunverulegar áhyggjur“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Á haustþingi mun Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra leggja fram nýja húsnæðisstefnu sem nær til 15 ára. Það verður þó gert í skugga þess að allt bendir til þess að næstu þrjú árin verði byggt nokkru undir þeim áformum sem sett voru fram í rammasamkomulagi ríkisins og sveitarfélaga fyrir tveimur árum. Sigurður segist hafa áhyggjur af ástandinu eins og það lítur við honum á húsnæðismarkaði, en að húsnæðisstefnan muni hjálpa til við að ná fyrirsjáanleika og betra jafnvægi til lengri tíma.

Sigurður var meðal framsögumanna á Húsnæðisþingi í morgun. Þar fór hann yfir helstu markmið og hugmyndir með húsnæðisstefnunni, en hún er þó enn í umsagnarferli og verður ekki lögð fram fyrr en líklega í október.

Sameiginleg sýn sveitarfélaga

Í samtali við mbl.is segir Sigurður að stefnan sé mikilvægt innlegg inn í að draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði. „Við erum að leggja fram stefnu til 15 ára þar sem við erum að segja að á grunni upplýsinga frá sveitarfélögum og byggt á mati HMS þá þarf að byggja um 35 þúsund íbúðir á 10 árum. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki þannig að menn eiga að geta farið af stað.“

Segir hann að stefnan kalli á sameiginlega sýn sveitarfélaga um fjölda og yfirlit með lóðum sem þarf að byggja á hverjum tíma næstu árin og að þær verði byggingahæfar þegar þörf sé á. Þá er í stefnunni einnig komið inn á hluti sem snerta byggingargeirann, „varðandi skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu,“ segir Sigurður.

Aukinn fjöldi „hagkvæmra íbúða“

En í stefnunni er ekki aðeins horft til langs tíma. Nú er í gangi tímabil verðbólgu og hárra vaxta og Sigurður segir að þá þurfi einnig aðgerðir til skemmri tíma og á þar við stuðning frá ríkinu til ákveðinna byggingarverkefna og til efnaminna fólks. „Ríkið er að segja að við ætlum á næstu árum að styðja við 35% af þessum byggingum sem þarf að byggja. M.a. verða 5% fyrir félagslegt húsnæði, en 30% munu lúta að því að koma öruggu húsnæði upp fyrir fólk þannig að húsnæðiskostnaður sé ekki íþyngjandi. Þetta er fyrir þann hóp sem ekki getur eignast eða leigt húsnæði með öðrum hætti en með aðstoð ríkisins,“ segir hann, en þessi flokkur hefur verið kallaður „hagkvæmar íbúðir“.

Á fundinum í morgun fór Sigurður yfir stöðuna hér á landi og sagði lítinn hluta húsnæðis þannig að ríkið hefði komið að með beinum stuðningi eða í formi félagslegra íbúða. Hins vegar væru áform um að ná upp ákveðnum massa og að það ætti að hafa þau áhrif út á húsnæðismarkaðinn að frekara jafnvægi náist. Bæði varðandi uppbyggingu, en líka t.d. varðandi verðmyndun á leigumarkaði.

Á þessu og næsta ári er gert ráð fyrir um …
Á þessu og næsta ári er gert ráð fyrir um 2.800 nýjum íbúðum á markaðinn árlega, en það er nokkuð undir því takmarki sem sett var í rammasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga. mbl.is/Kristján H. Johannessen

Sigurður vísar einnig til þess að ríkið hafi nýlega hækkað viðmið fyrir hlutdeildarlán, en þar er fólki hjálpað að eignast húsnæði. Þá sé einnig verið að auka stofnframlög í almenna íbúðakerfið sem sé leigukerfi. „Við höfum  ýtt við óhagnaðardrifnum félögum að fara af stað að byggja,“ segir Sigurður.

Öll sveitarfélög taki þátt

Á fundinum nefndi Sigurður að öll sveitarfélög þyrftu að skipuleggja sig eftir þörfum ólíkra hópa og bjóða upp á húsnæði fyrir ólíka hópa. Spurður hvort hann væri að beina þessu til ákveðinna sveitarfélaga sagði hann svo ekki vera. „Er bara að beina því til sveitarfélaga að flestir telja samfélög vera best þegar þar fari fram blönduð búseta ólíkra aðila og í öllum sveitarfélögum landsins er fólk til af ólíkum tekjuhópum og með ólíkar þarfir. Ég er bara að hvetja til þess að öll sveitarfélögin séu til í að taka þátt. Í þeirra húsnæðisáætlunum þá hljóta þau að horfa til að það sé skylda sveitarfélaga að sjá til þess að fólk í þeirra sveitarfélagi sé í öruggu húsnæði.“

Hingað til hefur rammasamningur aðeins verið undirritaður milli Reykjavíkur og ríkisins, en þar lofar borgin að gera ráð fyrir 16 þúsund íbúðum á næstu 10 árum. Sigurður segir að það eigi sér eðlilegar skýringar. Fókus flestra hafi undanfarið verið á efnahagsástandið og hjá ríkinu sé verið að vinna að fjárlögum til að tryggja meðal annars fjármögnun þessa málaflokks og að enginn sé að draga lappirnar, heldur séu fjölmörg samtöl í gangi. Segist hann vonast til að klára samninga við flest stóru sveitarfélögin í vetur.

Nokkuð dekkri sýn á næstu þremur árum

Á fundinum var í tveimur öðrum erindum varpað fram nokkuð dökkri sýn varðandi það hversu margar íbúðir væru í byggingu og væru í kjölfarið væntanlegar á markað á árunum 2023-2025. Tölur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera ráð fyrir að í ár klárist um 2.800 íbúðir, en þegar hafa klárast um 2.200 íbúðir það sem af er ári. Þá er gert ráð fyrir að á næsta ári verði svipaður fjöldi sem komi á markað, en árið 2025 er enn sem komið er aðeins gert ráð fyrir tæplega 2.000 íbúðum. Slíkt er þó háð þeim fyrirvara að enn er hægt að hefjast handa við nýbyggingar sem gætu klárast fyrir lok ársins og er því líklegt að talan hækki eitthvað.

Graf/HMS

Samkvæmt rammasamkomulagi ríkisins og sveitarfélaga er gert ráð fyrir 4.000 nýjum íbúðum árlega næstu fimm árin og því er ljóst að niðurstaðan verður umtalsvert frá því. Sigurður segir stöðuna ekki vera allt of bjarta til skamms tíma hvað þetta varði. 

„Já, ég hef raunverulegar áhyggjur af því og það eru verulegar áskoranir að kljást við svona hátt vaxtastig og verðbólguna. Því er það meginmarkmiðið að ná henni niður.“ Segist hann hafa fulla trú á því að þegar það takist muni nýja húsnæðisstefnan með langtímafyrirsjáanleika hjálpa mikið varðandi að greina og vinna með þörfina á húsnæðismarkaði. „Þá munu verktakar vera tilbúnir að taka við sér,“ segir Sigurður.

Bruninn á Bræðraborgastíg leiðir til nýs frumvarps

Sigurður kynnti einnig að það væri væntanlegt frumvarp í haust sem er unnið upp úr tillögum starfshóps eftir brunann á Bræðraborgarstíg. Upphaflega voru tveir starfshópar settir af stað og í niðurstöðum þess fyrr var meðal annars komið inn á fjölda atriða sem þyrfti að bæta. Nokkur þeirra atriða eru að sögn Sigurðar þegar komin vel á veg, en önnur kölluðu á lagabreytingu.

Nefnir hann meðal annars endurskoðun á heimildum til fjöldaskráningar lögheimilis í íbúðahúsnæði. „Það hefur komið á óvart hversu margir geta verið skráðir í sama húsnæði. Það er verið að setja inn ákveðnar heimildir og leiðir til að hafa eftirlit með því og geta tekið út. Það er líka verið að skoða tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem er ólögmæt í dag. Er sett á þannig að hægt sé að setja þar á ákveðið eftirlit og uppfyllt öryggi um brunavarnir.“

Leigjendafrumvarp lagt fram á ný eftir útvötnun áður

Þá segir Sigurður að væntanlegt sé frumvarp í september varðandi réttarstöðu leigjenda. Það hefur meðal annars verið í samráðsgátt og snýr meðal annars að leiguskrá til að fá betri sýn og upplýsingar um leigumarkaðinn hér á landi. Hafði Sigurður í erindi sínu bent á að hér á landi væru um 60% leigusölum einstaklingar en ekki leigufélög eða stærri aðilar. Það væri öfugt við það sem þekktist erlendis, þar sem leigufélög væru oftast langstærsti aðilinn á markaðinum.

Á síðasta þingi fór í gegn breyting á þessum lögum, en Sigurður segir að þingið hafi breytt því frá þeim tillögum sem ráðuneytið hafði sett upp. Hafi einstaklingar sem eru leigusalar verið undanþegnir upplýsingagjöf og óskað var eftir því að skoðaðar yrðu aðrar leiðir til að ná markmiðinu um upplýsingaöflunina.

Segir Sigurður að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi haft áhyggjur út frá grundvallargildum um að ekki eigi að þurfa að skrá allt. „En starfshópurinn sem fór svo yfir þetta og komst að þeirri niðurstöðu að aðrar leiðir til að ná fram þessu markmiði væru ekki færar og lagði því fram sem fyrsta atriði að það yrði farið aftur til þingsins með þeim rökstuðningi.“ Segir hann að niðurstaðan hafi verið sú að þessarar lágmarksskráningar myndi aldrei nást nægjanleg yfirsýn yfir leigumarkaðinn.

Spurður hvort hann eigi von á að frumvarpið eigi meiri möguleika að fara í gegn núna segir Sigurður svo vera. „Já, ég vona að við höfum betri rök og að við höfum kannað allar leiðir sem menn bentu á í meðförum þingsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka