Karlmanni, sem grunaður er um manndráp á konu í heimahúsi á Selfossi í lok apríl, hefur verið hleypt úr gæsluvarðhaldi. Maðurinn er þó kominn í farbann.
Bráðabirgðakrufning á konunni benti til þess að um manndráp væri að ræða og maðurinn hefur nú sætt varðhaldi í 18 vikur, eða rúmlega fjóra mánuði.
Lög um meðferð sakamála kveða á um að ekki megi úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en tólf vikur nema að brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.
RÚV greinir nú frá því að lögregla hafi ekki gert kröfu um framlengingu varðhaldsins en fór þess í stað fram á að hann yrði úrskurðaður í farbann. Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfu lögreglu.