„Þetta virðist vera orðið nokkuð stöðugt inn við Sveinstind þannig að maður er að vona að þetta sé búið að ná hámarki,“ segir Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi.
Hún segir ekki neinar stórar breytingar síðan í gær á jökulhlaupinu í Skaftá. Helstu áhyggjur fólksins í sveitinni segir Auður vera brot á landi og það að sauðfé sé allt úti og geti fest sig í leðjupollum sem sitji eftir að hlaupi loknu.
„Það er svona helst það að þær fari sér að voða en ég held að þetta verði afskaplega lítið hlaup.“
Auður segir að eins og staðan sé á þessari stundu sé um miklu minna hlaup að ræða en bæði 2015 og 2018.
„Þetta virðist meira að segja talsvert minna en hlaupið 2021. Það hefur reyndar ekki fengist staðfest hvor ketillinn er að hlaupa. Maður hefur mestar áhyggjur af því að vestari ketillinn fari af stað og þá getur þetta náttúrlega orðið meira.“