Már Kristjánsson, framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðaþjónustu á Landspítalanum, segir mikinn eril búinn að vera undanfarna daga á spítalanum.
Segir hann bæði um meiri aðkomu að ræða á spítalann og fleiri inniliggjandi sjúklinga. Það hafi birst þannig að meiri annir séu á bráðamóttökunni í Fossvogi.
„Þetta er auðvitað óheppilegt fyrir sjúklingana sem þurfa að bíða lengur eftir þjónustu. Þetta er óþægilegt og það er bið,“ segir Már og hvetur fólk til að anda djúpt ofan í magann á sér.
Segir hann ekki um hamfaraástand að ræða og enga þjónustuþurrð en að þetta sé frekar ríkulegt eftir sumarleyfin.
„Þegar starfsfólk kemur úr sumarleyfum þá opnast upp fleiri rúm en starfsemin sem hefur þurft að bíða yfir sumarið eykst um leið. Nú er þetta þannig að það er meira um að vera og birtingarmyndin er á bráðamóttökunni sem hefur áhrif á sjúkraflutningana og bið eftir sjúkrabíl.“
Segir hann um órofna keðju að ræða þannig að ef mikið sé um að vera í flutningum eða ef það sé eldsvoði eða eitthvað slíkt verði mikið að gera hjá sjúkraflutningamönnum. Að sama skapi segir hann að þegar mikið sé að gera á spítalanum verði margir flutningar með sjúkrabílum á milli Fossvogs og Hringbrautar, bæði út af rannsóknum og vegna þess að fólk er að fara á réttan stað.
„Nú hafa allar bylgjurnar einhvern veginn raðast þannig upp að það er meira um að vera en oft áður.“
Segir hann ekki um áhættusamt ástand fyrir samfélagið að ræða en forgangsflokkar sjúkraflutninga séu fimm talsins.
„Ef það er mjög mikið að gera í forgangsflokki 1 og 2 þá bíða hinir. Það hefur verið talsvert um að vera á bráðamóttökunni og það táknar að biðtíminn er lengri.“
Í kjölfar fréttar mbl.is birti spítalinn eftirfarandi tilkynningu:
„Landspítali vill í ljósi anna á bráðamóttökunni í Fossvogi undanfarna daga benda fólki sem ekki er í bráðri hættu á að hringja í 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru áður en leitað er á bráðamóttökuna.
Á bráðamóttöku Landspítala Fossvogi er forgangsraðað eftir bráðleika sem getur þýtt að einstaklingar sem ekki eru í bráðri hættu geta þurft að bíða lengur en annars eftir þjónustu þegar álag er mikið eins og verið hefur undanfarna daga. Ef því verður mögulega við komið er þess vegna æskilegt að reyna að leita annað. Hér fyrir neðan er yfirlit um heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu.“