Skjálfti af stærðinni 3,7 varð í Mýrdalsjökli klukkan 23.49.
Skjálftinn varð 4,6 km norðnorðvestur af Hábungu og voru upptök hans á 1,1 km dýpi, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Fannst hann meðal annars í Reynishverfi í Mýrdalnum.
Annar minni skjálfti fylgdi í kjölfarið. Var sá 2,8 að stærð og voru upptök hans á 1,1 km dýpi, 4,1 km norðvestur af Hábungu.
Uppfært klukkan 00.33:
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að nokkrir eftirskjálftar hafi fylgt skjálftanum. Sá stærsti var 2,8 að stærð eins og áður sagði.
Nokkur virkni hefur verið í Mýrdalsjökli það sem af er ári. Skjálftahrina varð í jöklinum snemma í sumar, sú stærsta í að minnsta kosti sjö ár.
Síðast varð skjálfti af svipaðri stærðargráðu 23. júlí. Átján skjálftar hafa mælst yfir þremur í Mýrdalsjökli frá áramótum, flestir í hrinunni 30. júní. Enginn órói hefur fylgt þessum skjálftum.