Undirbúningur að uppbyggingu á reit 13 á Kársnesi hefur staðið yfir í tvo áratugi. Þá eru sex ár liðin síðan deiliskipulag á reitnum var kynnt.
Reiturinn hefur verið til umræðu vegna sölu Kópavogsbæjar á tveimur fasteignum á honum.
Hjálparsveit skáta í Kópavogi seldi Kópavogsbæ þessar eignir á 790 milljónir króna en fjallað var um málið í Morgunblaðinu í gær. Bærinn seldi svo Fjallasól þessar tvær eignir sem eignaðist þar með fimm fasteignir af sex á reit 13. Áður hafði Fjallasól keypt Bryggjuvör 1 og 3 og Bakkabraut 2 í fyrra en seljandi var Vinabyggð, dótturfélag Fasteignafélags Íslenskrar fjárfestingar ehf.
Þórir Kjartansson, framkvæmdastjóri Íslenskrar fjárfestingar, segir félagið hafa byrjað að kaupa eignir á Kársnesi fyrir um tveimur áratugum með framtíðaruppbyggingu í huga. Þá séu um tólf ár síðan Kópavogsbær kynnti áform um að skipta Kársnesinu í 13 þróunarreiti. Félög tengd Íslenskri fjárfestingu ehf. hafi síðan byggt um 200 íbúðir á Kársnesi og selt lóðir. Þ.m.t. á reit 13 sem sé síðastur í röðinni í uppbyggingunni.
Haustið 2016 var deiliskipulagslýsing fyrir þróunarsvæðið Kársnes kynnt og samþykkt í skipulagsráði. Rúmu ári síðar, eða í nóvember 2017, var kynnt tillaga að fyrirkomulagi og undirbúningi vinnu við deiliskipulag á reit 13. Ferlinu skyldi skipt í tvo áfanga. Í þeim fyrri yrði efnt til hönnunarsamkeppni og tillaga valin í samráði við skipulagsráð. Í síðari áfanga yrði deiliskipulagstillaga unnin.
Það var svo í ágúst 2018 sem skipulagsráði voru kynntar fjórar tillögur úr hönnunarsamkeppni um reitinn. Í september 2018 var tillaga Atelier arkitekta að deiliskipulagi kynnt og valin hlutskörpust af skipulagsráði. Tillagan var svo kynnt nánar í júlí 2020 og svo með breytingum í september 2020.
Þórir segir biðina eftir upphafi framkvæmda á reit 13 hafa kostað sitt en slíkar tafir eigi þátt í hækkandi byggingarkostnaði á höfuðborgarsvæðinu. Það einfaldi málið að nú sé aðeins einn lóðarhafi á reit 13. Þá meðal annars vegna sameiginlegs bílakjallara á lóðinni og til að tryggja samfellu í byggingartíma.
Fram hefur komið af hálfu fulltrúa Kópavogsbæjar að sala byggingarréttar og innviðagjöld á reit 13 skili bænum um einum og hálfum milljarði króna.
Samkvæmt heimildum blaðsins eru innviðagjöldin margfalt hærri en til dæmis almennt í Reykjavík.