Upptökin úr eystri Skaftárkatli

Athuganir úr flugi staðfesta að upptök Skaftárhlaupsins eru í eystri Skaftárkatli. Vísindamenn veðurstofu eru enn í eftirlitsflugi yfir svæðinu með Landhelgisgæslu Íslands.

Rennsli Skaftár við Sveinstind mældist tæpir 700 rúmmetrar á sekúndu klukkan þrjú í dag en um 750 rúmmetrar á sekúndu í morgun. Því eru vísbendingar um að byrjað sé að draga úr rennsli við Sveinstind og að hlaupið verði í minna lagi miðað við fyrri hlaup úr eystri Skaftárkatli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Rennsli í Eldvatni mældist um 390 rúmmetrar á sekúndu klukkan þrjú en var tæplega 380 rúmmetrar á sekúndu klukkan níu í morgun.

Búist er við að hámarksrennsli við þjóðveg 1 verði náð um 10 klukkustundum eftir að hámarki er náð við Sveinstind.

Virðist hafa náð ákveðnum toppi

Ein­ar Hjör­leifs­son, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, segir að koma þurfi í ljós á næsta sólarhring hvort hlaupið hafi náð hámarki en það virðist hafa náð ákveðnum toppi í morgun.

„Sé þetta toppurinn er þetta fremur lítið hlaup úr eystri katlinum og sé þetta toppurinn og ef flóðið heldur áfram að streyma niður í átt að þjóðveginum þar til við sjáum hámarki náð við Eldvatn eða við þjóðveginn þá mun þetta vonandi ekki hafa áhrif á þjóðveginn eða aðra innviði.“

Miklar rigningar í kortunum

Einar segir að það taki nokkra sólarhringa að sjatna í ánni en að miklar rigningar sem eru í kortunum geti framlengt það að það sé mikið vatn áfram í ánni niðri á láglendi en að það þurfi að fylgjast með því áfram.

Fréttin hefur verið uppfærð

Eldvatn við Ása í hádeginu í dag.
Eldvatn við Ása í hádeginu í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert