Vann 32,5 milljónir og tók íbúðina af sölu

Maðurinn tók íbúðina sína umsvifalaust af sölu þegar hann vann …
Maðurinn tók íbúðina sína umsvifalaust af sölu þegar hann vann þann stóra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Karlmaður um fertugt var einn með allar tölur réttar í Lottóinu um liðna helgi. Vinningurinn breytti miklu fyrir manninn sem hafði sett íbúð sína á sölu vegna þess að afborganir af húsnæðisláninu höfðu hækkað allverulega síðustu mánuði. 

Vinningurinn hljóðaði upp á 32,5 milljónir og tók maðurinn íbúðina sína strax af sölu þegar hann vann. 

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að maðurinn hafi getað skipulagt fjármál sín upp á nýtt með fjarmálaráðgjöf sem öllum þeim sem hreppa stóra vinninga stendur til boða. 

Trúði ekki góðu fréttunum

Foreldrar vinningshafans áttu erfitt með því að trúa því að hann hefði unnið. Segir í tilkynningunni að stóreflis bros hafi birst á andliti pabbans, sem í senn fraus. Móðir hans hins vegar neitaði að trúa fréttunum og sagði bara: „Þegiðu! Þegiðu! Þú lýgur þessu! Þegiðu!“.

Dóttir vinningshafans nýtur einnig góðs af vinningnum, en hún hyggst taka bílpróf fljótlega.

Vinningshafinn heppni keypti miðann á lotto.is og eins og hann gerir venjulega þá lét hann sjálfvalið finna tölur fyrir sig þrisvar sinnum áður en hann keypti miðann. Sú aðferð borgaði sig svo sannarlega hjá honum um síðustu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert