Vaxtakostnaður verktakafyrirtækis þegar fullbyggja á 100 íbúða fjölbýlishús er um það bil andvirði einnar íbúðar á mánuði. Það er því mikið í húfi að stytta þann tíma sem fer í heildarbyggingarferlið, allt frá skipulagi þangað til húsnæðið er komið í notkun. Þetta var meðal þess sem kom fram hjá Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, á Húsnæðisþingi í morgun.
Benedikt sat í pallborði ásamt fleirum og var þar farið vítt og breitt yfir ýmislegt sem við kemur húsnæðismarkaðinum og skipulagsmálum. Sagði hann jafnframt að ekki skorti fjármagn í landinu. Bæði væri hér öflugt bankakerfi og stórt lífeyriskerfi og sagðist hann spenntur fyrir því að fara svipaða leið og hefði verið farin að hluta á Norðurlöndunum við uppbyggingu til að lækka kostnað. Nefndi hann að þar hefðu fjármálafyrirtæki jafnvel byggt upp heilu hverfin og um leið haft umtalsvert eigið fé í verkið og þar með náð að lækka vaxtastigið og kostnað.
Skortur á húsnæði var stórt áherslumál á fundinum, líkt og hefur verið á sambærilegum fundum síðustu ár. Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, sagði meðal annars að í dag skorti húsnæði sem jafngilti framleiðslu þriggja ára inn á markaðinn. Áskorunin væri sú að ná þessum fjölda niður og ná að byggja hagkvæmt húsnæði þannig að fólk gæti staðið undir húsnæðiskostnaði.
Nefndi Finnbjörn að ASÍ hefði gengið út frá því að húsnæðiskostnaður ætti ekki að vera yfir 25-30% af ráðstöfunartekjum og fyrir fjölmarga væri það ekki staðan. Sagði hann að við slíkar aðstæður þyrfti að sækja kjarasamningshækkun þannig að allir hefðu aðgengi að húsnæði.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, bætti þá inn í að ekki væri hægt að benda hvert á annað. Vandinn við hækkandi íbúðaverð yrði ekki leystur með því að gera kjarasamninga sem ekki væri innistæða fyrir og væri bara fóður á verðbólguna.
Eygló Harðardóttir, fyrrverandi húsnæðismálaráðherra, minntist á verkamannabústaðakerfið og hvernig þyrfti að fara í uppbyggingu þess. Nefndi hún að ef miðað væri við að byggja ætti 12 þúsund félagslegar íbúðir og miðað væri við 40 milljónir á íbúð væri verðramminn tæplega 500 milljarðar og miðað við þörf ætti að horfa til þess að koma slíku á koppinn á 20-30 árum.
Endaði Eygló á því að hrósa Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra í Reykjavík, sem einnig var í pallborðinu, fyrir vinnu við að tryggja lóðaframboð, en gagnrýndi um leið sveitarstjóra í nágrannasveitarfélögum sem hefðu nægt land fyrir að draga lappirnar. Nefndi hún þar sérstaklega Garðabæ og Mosfellsbæ.