Virðist vera að fjara út

Rennsli Skaftár virðist hafa verið nokkuð stöðugt við Sveinstind frá …
Rennsli Skaftár virðist hafa verið nokkuð stöðugt við Sveinstind frá klukkan þrjú í nótt. Of snemmt er þó að segja til um að hlaupið hafi náð hámarki. mbl.is/Jónas Erlendsson

Rennsli Skaftár jókst rólega í gærkvöldi og fram á nótt en virðist hafa verið nokkuð stöðugt við Sveinstind frá klukkan þrjú í nótt. Mælitæki þar sýndu rennsli upp á um 740 rúmmetra á sekúndu klukkan níu í morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Of snemmt að fullyrða að hlaupið hafi náð hámarki

Þá segir að mælir Veðurstofunnar við Eldvatn niðri við þjóðveg 1 endurspegli sama hæga vöxt og að rennsli þar mælist nú tæplega 380 rúmmetrar á sekúndu.

mbl.is/Jónas Erlendsson

Of snemmt er að fullyrða að hlaupið hafi náð hámarki þótt rennsli við Sveinstind hafi verið nokkuð stöðugt síðustu klukkustundir. Ekki er enn hægt að segja með fullri vissu hvort upptök hlaupsins séu í vestari eða eystri katlinum.

Hlaupferillinn minnti í fyrstu meira á þekkt hlaup úr vestari katlinum en nýjar radarmyndir úr SENTINEL-gervitunglinu sem Ingibjörg Jónsdóttir á Jarðvísindastofnun hefur aflað og benda til þess að sig hafi orðið í eystri katlinum, eins og segir í tilkynningunni.

Vísbendingar um lítið hlaup

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að vöxturinn virðist vera að fletjast út. „Við þurfum að fylgjast með þróuninni á næstu klukkustundum og fundum eftir hádegi með okkar helstu sérfræðingum.“

Einar segir að þó enn sé að bætast örlítið í rennslið sé ferillinn mjög hægur og rennslið hafi aukist mjög hægt frá aðfaranótt þriðjudags.

Hann segir vísbendingar um að hlaupið geti verið fremur lítið og miðað við radarmyndina frá Jarðvísindastofnun gæti frekar verið um að ræða lítið hlaup úr eystri katlinum fremur en stórt hlaup úr þeim vestari. Segir hann að það þurfi að bíða og sjá þegar frekari gögn og myndir berist. „Við þurfum að fylgjast með áfram, það er það eina sem hægt er að gera núna.“

Mikilvægt að allir séu meðvitaðir

Veðurstofan vekur athylgi á mögulegri vá. Það sé mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eigi um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geti komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá en næstu daga verða flóðaaðstæður við bakka Skaftár.

  • Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnaárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur myndast mjög hratt í kringum ketilinn. Því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum sem og jöðrum Skaftárjökuls og Tungnaárjökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert