Fagnar ákvörðun lögreglustjórans

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður mannsins.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður mannsins.

„Ég fagna því að lögreglustjórinn á Suðurlandi hafi loksins áttað sig á því að það voru ekki lagaskilyrði fyrir því að umbjóðandi minn myndi áfram sæta gæsluvarðhaldi,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður karlmanns sem þar til í gær hafði sætt gæsluvarðhaldi í 18 vikur grunaður um manndráp á Selfossi.

Maðurinn var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í gærkvöldi en lögreglan á Suðurlandi fór fram á að maðurinn sætti áfram farbanni. Héraðsdómur Suðurlands féllst á þá kröfu lögreglunnar.

Lög um meðferð sakamála kveða á um að sakborningar megi ekki sæta gæsluvarðhaldi lengur en 12 vikur nema brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

„Löggjafinn hefur markað gæsluvarðhaldi mun skemmri tíma en það, 12 vikur, og mér finnst algjörlega óforsvaranlegt að lögreglan bæti við þessum viðbótartíma sem umbjóðandi minn þurfti að sæta gæsluvarðhaldi,“ segir Vilhjálmur og ítrekar að lagaskilyrði til þess hafi ekki verið uppfyllt.

Önnur embætti ná að vinna mál innan 12 vikna

„Það er bara ljóst að Alþingi hefur markað þessu rannsóknarferli 12 vikur. Lögreglan verður að fylgja landslögum eins og aðrir. Það er tíminn sem lögreglan og ákæruvald hafa til að gefa út ákæru í málinu. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir lögregluna ef þeir ná ekki að vinna þetta innan þess tímaramma sem löggjöfin markar þeim,“ segir Vilhjálmur.

„Önnur embætti virðast ná að afgreiða mál á þessum tíma. Þetta eru spurningar sem lögreglustjórinn á Suðurlandi þarf að svara,“ segir Vilhjálmur, spurður hvort ekki sé óeðlilegt að rannsókn málsins taki lengur en 12 vikur.

„Höldum ekki mönnum lengur en við þurfum“

Lögregla á Suðurlandi hefur sagt rannsókn málsins umfangsmikla og að bráðabirgðaniðurstöður krufningar bendi til þess að um manndráp hafi verið að ræða.

Sveinn Kristján Rún­ars­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi, segir í samtali við mbl.is að lögreglan sé búin að fara yfir stafræn gögn í málinu og að nú sé beðið eftir endanlegri krufningarskýrslu.

„Við erum komin með talsvert af gögnum og erum búnir að yfirheyra hann um það sem rannsóknarhagsmunirnir byggðust á. Þar sem rannsóknarhagsmunir krefjast þess ekki að hann sé í gæsluvarðhaldi lengur ákváðum við að fara fram á þetta. Við höldum ekki mönnum lengur en við þurfum,“ segir Sveinn.

Hann segir málið ekki alfarið hafa snúist um krufningarskýrsluna heldur önnur gögn líka. „Við erum búnir að fara í gegnum mikið af stafrænum gögnum og það er þar sem það steytti á einna helst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert